Stjórnarandstaðan telur að það vanti upp á vilja hjá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, til þess að kaupa gögn um skattaundanskot sem óþekktur aðili hefur boðið íslenskum stjórnvöldum til sölu. Bjarni ásakaði Bryndísi Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra um að hafa dregið lappirnar í málinu og sagði að það kæmi ekki til greina að greiða fyrir upplýsingarnar með ferðatöskum fullum af seðlum.
Í Fréttablaðinu í dag er rætt við forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna um málið. Þar segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, að hún telji "ólíklegt að ráðherra vilji kaupa umrædd gögn" og að "svo virðist sem íslenska frændhyglin sé að þvælast fyrir fjármálaráðherra. Hann dregur þjóð sína á asnaeyrunum."
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að Bjarni sé sífellt að leita að sér að undankomuleið í málinu. Það sé hans að leysa en Bjarni sé ekki að ýta málinu áfram.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og fyrrum fjármálaráðherra, segir í samtali við Fréttablaðið að hann undrist orð Bjarna um skattrannsóknarstjóra. "Hver svo sem vilji ráðherrans er í þessu máli þá hjálpar það ekki málinu að senda skattrannsóknarstjóra tóninn í fjölmiðlum heldur leysir hann málið með öðrum leiðum, sé það hans vilji".
Nöfn mörg hundruð Íslendinga
Embætti skattrannsóknarstjóra fékk nöfn 50 íslenskra aðila síðasta sumar sem vísbendingar eru um að hafi stundað skattaundanskot og komið fyrir eignum í skattaskjólum. Upplýsingarnar komu frá manni sem bauð embættinu gögnin til sölu. Um var að ræða um tíu prósent þeirra gagna sem hann segist vera með undir höndum og var þeim
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri.
ætlað að vera sýnishorn fyrir íslensk stjórnvöld. Til að fá öll gögnin, sem innihalda mörg hundruð nöfn íslenskra aðila, vildi maðurinn fá greitt.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið gaf út yfirlýsingu í byrjun október 2014 þar sem skattrannsóknarstjóra var heimilað að kaupa gögnin að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Bryndís Krisjánsdóttir skattrannsóknarstjóri sagði þá í samtali við Kjarnann að það lægi á að klára málið, en vildi ekki nefna sérstök tímamörk í því sambandi. Nú, rúmum fjórum mánuðum síðar, er málið enn án niðurstöðu og komið í pólitískan hnút.
Einkaaðilar áhugasamir
Kjarninn spurðist fyrir um það hjá embætti skattrannsóknarstjóra í haust hvert uppsett verð fyrir gögnin væri. Hópur einstaklinga hafði þá sett sig í samband við Kjarnann með það fyrir augum að fjármagna kaupin á gögnunum og birta þau á vettvangi Kjarnans. Bryndís sagði að ekki væri komin verðmiði á gögnin á þeirri stundu en að fjölmargir einkaaðilar hefðu líka sett sig í samband við embætti hennar með það fyrir augum að fjármagna kaupin á gögnunum.