Fjárfestar sem koma að byggingu Marriot-hótels á reitnum við hlið Hörpu hafa engin áform um að hætta við bygginguna vegna samþykktar Reykjavíkurborgar um sniðgöngu á ísraelskum vörum.
Í DV í dag kemur fram að fjárfestarnir hafi hótað að hætta við hótelið og tillaga Reykjavíkurborgar ógni því sautján milljarða fjárfestingu á reitnum.
Richard L. Friedman, forstjóri Carpenter & Co. og forsvarsmaður fjárfestanna, sem leiðir hótelverkefnið, segir í yfirlýsingu sem hann sendi DV í gær og öðrum fjölmiðlum nú í morgun að hann hafi heyrt af ákvörðun meirihluta borgarstjórnar um viðskiptabann gegn Ísrael. Fyrirtækið skipti sér hins vegar ekki af stjórnmálum á Íslandi. Verkefnið og hann sjálfur hafi mætt mjög góðu viðmóti á Íslandi, bæði af íbúum og borgaryfirvöldum. „Áform okkar eru óbreytt,“ segir hann í yfirlýsingunni.
„Við erum áfram mjög spennt fyrir fyrirhugaðri hóteluppbyggingu og þeim áhrifum sem hún mun hafa á íslenska ferðaþjónustu, efnahag landsins og ásýnd borgarinnar. Við látum öðrum eftir pólitísk úrlausnarefni, hvort heldur er á Íslandi eða á alþjóðlegum vettvangi. Sjálfur hef ég fulla trú á umburðarlyndi Íslendinga og virðingu þeirra fyrir öllu fólki,“ segir hann.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er rétt að einn einstaklingur, sem tengist verkefninu, hafi haft miklar skoðanir á samþykkt Reykjavíkurborgar. Samþykktin verður dregin til baka á aukafundi borgarstjórnar í dag. Skoðanir þessa einstaklings hafi hins vegar engin áhrif á verkefnið.