Landssamband íslenzkra verzlunarmanna og Starfsgreinasamband Ísland lýsa bæði yfir stuðningi við starfsmenn Rio Tinto í álverinu í Straumsvík. Harðar kjaradeilur starfsfólksins við vinnuveitendur sína hafa nú staðið í langan tíma, en kjarasamningur rann út fyrir tæpum tíu mánuðum.
Þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) samþykkti í dag ályktun þar sem skorað er á Rio Tinto að ljúka gerð kjarasamninga sem allra fyrst án þess að störf almennra starfsmanna verði sett í verktöku.
Fyrirtækið hefur farið fram á það að fá meiri heimildir til að auka verktakastarfsemi í álverinu. „Þessi krafa er í samræmi við það sem Rio Tinto er að gera á alþjóðavísu og virðist markmiðið vera að svipta launamenn kjarasamningsbundnum réttindum. Slíkt er með öllu óásættanlegt og í andstöðu við grundvallarhugsjónir verkalýðshreyfingarinnar,“ segir LÍV.
Á þingi Starfsgreinasambandsins í vikunni var einnig fjallað um málefni starfsmanna álversins og fullum stuðningi lýst við aðgerðir starfsfólksins. „Tilraunir RIO Tinto til að auka verktöku á alþjóðavísu sem og í Straumsvík er ekkert annað en aðför að samningsbundnum kjörum starfsfólks,“ sagði í ályktun SGS um málið. „Krafa fyrirtækisins um aukna verktakastarfsemi er afturhvarf til þeirra tíma þegar atvinnurekendur gátu valið frá degi til dags hverjir fengju vinnu og á hvaða kjörum. Það verður ekki liðið!“
Segja álverð hafa lækkað og álverið berist í bökkum
„Hafa ber í huga að álverð hefur hríðfallið frá áramótum og hefur ekki verið lægra í ein sex ár. Afleiðingin er að ISAL er nú rekið með tapi frá degi til dags og tapið fer vaxandi,“ sagði í opnu bréfi sem Rannveig Rist sendi á starfsmenn álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík í september. Hún hafði sent annað bréf í ágúst þar sem einnig var talað á svipuðum nótum. „Staða á mörkuðum er slæm og hefur versnað verulega frá áramótum. Heimsmarkaðsverð á áli hefur lækkað mikið og það á einnig við um markaðsuppbætur, sem eru hluti af verðinu sem við fáum fyrir álið. Eftirspurn er langt undir áætlunum. Samanlögð áhrif þessa á sölutekjur ISAL eru harkaleg. Og þar sem orkuverð ISAL er ekki lengur tengt við álverð þolum við lágt álverð miklu verr en áður.“
Rannveig sagði einnig í bréfinu í september að hvergi yrði hvikað frá kröfum fyrirtækisins um að bjóða út verkefni í verktöku í auknum mæli. „Í þeim efnum býr ISAL við mestu fjötra allra fyrirtækja á Íslandi. Eins og fram hefur komið erum við tilbúin að ræða hvernig koma megi til móts við starfsmenn sem þetta hefði áhrif á“ sagði hún.
Gylfi Ingvarsson, talsmaður verkalýðsfélaganna í Straumsvík hefur hins vegar sagt að um áróður sé að ræða.