VR segir að Már Guðmundsson seðlabankastjóri tali upp verðbólguna með því að segja að nýgerðir kjarasamningar muni leiða til þess að fyrirtæki þurfi að hækka verðlag. „Með þessum orðum hefur seðlabankastjóri gefið fyrirtækjum grænt ljós á að hækka verð og fela sig á bak við það að laun hafi hækkað of mikið. Í viðtalinu segir hann að ólíklegt sé að fyrirtæki geti heilt yfir tekið þetta á sig og því muni verðlag hækka,“ segir í tilkynningu frá Ólafíu B. Rafnsdóttur, formanni VR.
Már sagði í kvöldfréttum RÚV á föstudagskvöld að nú væri teflt á tæpasta vaði með þeim kjarasamningum sem nú hefðu verið undirritaðir. „Þetta þýðir þá það að líkurnar eru verulegar á því að verðbólga fari núna vaxandi enda hefur það sýnt sig á markaðnum í dag að verðbólgu álag á ríkisskuldabréfamarkaði hefur rokið upp,“ sagði Már Guðmundsson. Ólíklegt væri að öll fyrirtæki gætu staðið undir þessum launahækkunum, einkum þau sem væru með þungan launakostnað hlutfallslega og lítið svigrúm til að takast á við kostnaðarhækkanir.
Ólafía segir að þessi orð Más séu í andstöðu við nýjasta hefti Peningamála, riti Seðlabankans, þar sem komi fram að stjórnendur séu bjartsýnir um þróun framlegðar á næstu sex mánuðum, og það geti verið vísbending um að fyrirtæki hafi nokkurt svigrúm til að taka á sig hækkanir án þess að velta þeim út í verðlag eða hægja á ráðningum. „Laun og launatengd gjöld eru að meðaltali um 20% af rekstrargjöldum fyrirtækja. Það þýðir að t.d. 5% hækkun á launum og launatengdum gjöldum þarf aðeins að leiða til þess að fyrirtæki hækki verðlag um rúmt 1%. Hlutfall launakostnaðar er þó mjög misjafnt milli fyrirtækja og getur verið allt frá um 10% og yfir 40%. Þær atvinnugreinar þar sem starfsfólk er alla jafna á lægri launum eru einnig í þeirri stöðu að laun og tengd gjöld eru lágt hlutfall af heildarkostnaði, eða um 10%. Sérstök hækkun lægstu launa ætti því ekki að þurfa að leiða til þess að verðlag hækki mikið.“
Þá segir Ólafía að bent hafi verið á að verðbólguvæntingar hafi rokið upp. „Það áhugaverða er að verðbólguvæntingar, hvort sem það eru væntingar fyrirtækja, almennings eða markaðarins, eru yfirleitt slæmur mælikvarði á verðbólgu í framtíðinni,“ segir Ólafía. Hún segir að verðbólguvæntingar hafi kannski rokið upp nú vegna þess að Seðlabankinn hafi talað óvarlega um áhrif launahækkana og átt sinn þátt í því að væntingarnar hafi rokið upp.
„Þannig hefur Seðlabankanum tekist að hækka þær væntingar sem hann vill halda niðri. Nú stefnir því allt í að Seðlabankinn muni hækka vexti til að ná niður væntingum sem hann hefur sjálfur tekið þátt í að þrýst upp á við. Skynsamlegra væri að bíða eftir áhrifum kjarasamninganna og grípa þá inn í með aðgerðum, ef þörf krefur.“