Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur að asi á því að tekjufæra 21 milljarð króna hjá ríkissjóði vegna lækkunar á eigin fé Seðlabanka Íslands sé allt annað en traustvekjandi, enda byggist tekjufærslan á „áætlun“ um hagnað af rekstri Seðlabankans á yfirstandandi ári. Hann mun því ekki sitja hjá við afgreiðslu frumvarps til laga sem lögfestir nýja arðgreiðslureglu fyrir Seðlabanka Íslands. Í áliti minni hlutans segir að með því sé hann að „vísa ábyrgð á því á hendur stjórnarmeirihlutanum“.
Undir álitið skrifa Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, og Guðmundur Steingrimsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Lækka eigið fé Seðlabanka og auka tekjur ríkissjóðs
Kjarninn greindi frá því í byrjun október að til stæða að leggja fram frumvarp um að lögfesta nýja arðgreiðslureglu fyrir Seðlabanka Íslands. Verði frumvarpið að lögum mun Seðlabankinn borga allan hagnað yfir ákveðið lágmarks eigið fé til ríkissjóðs sem arðgreiðslu. Frumvarpið var síðan lagt fram 11. nóvember síðastliðinn. Þar kom fram að „Heildarfjárhæð innkallanlegs eigin fjár […]er 52 milljarðar kr. Eftirstöðvar innkallanlegs eigin fjár færast upp við hver áramót með hækkun vísitölu neysluverðs“.
Arðgreiðslur Seðlabankans til ríkissjóðs gætu aukist til muna á næstu árum verði lögum um þær breytt. Frumvarp um slíka breytingu var lagt fram 11. nóvember síðastliðinn.
Frumvarpið snýst um að breyta arðgreiðslureglu Seðlabankans. Það tryggir ríkissjóði miklar tekjur til skamms tíma.
Samkvæmt frumvarpinu mun við gildistöku laganna, verði þau samþykkt, verða„heimilt að lækka stofnfé ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands um 26 milljarða króna“. Líkt og Kjarninn hefur þegar greint frá mun sú upphæð fara í að lækka skuldabréf sem ríkið skuldar Seðlabankanum um 26 milljarða króna, í 145 milljarða króna. Sú aðgerð gerir það að verkum að vaxtagreiðslur ríkisins vegna skuldabréfsins verða 8,1 milljarður króna á næsta ári.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 segir að þessi nýja arðgreiðsluregla geri „ráð fyrir því að auknar vaxtatekjur vegna skuldabréfsins skili sér aftur til ríkissjóðs í formi arðgreiðslu þar sem nýja reglan gerir ráð fyrir að allur hagnaður bankans verði greiddur til ríkissjóðs sé eigið fé bankans yfir skilgreindu viðmiði“.
Með nýju arðgreiðslureglunni gætu því vextirnir sem ríkið greiðir af skuld sinni við Seðlabankann skilað sér aftur til ríkissjóðs í formi arðgreiðslu í lok hvers árs.
Segja frumvarpið setja Alþingi í klemmu
Efnahags- og viðskiptanefnd hefur haft málið til umfjöllunar. Minni hluti hennar skilaði nefndaráliti í dag. Þar gerir hann athugasemdir við hversu seint málið barst til Alþingis og segir að málið sé þannig fram sett og í þannig samhengi af hálfu stjórnarmeirihlutans að „það setur Alþingi í verulegan vanda. Þetta stafar af því að gert er ráð fyrir tekjunum frá Seðlabankanum í frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fram og fjallað um á undan því máli sem hér hefur verið til umfjöllunar. Minni hlutinn leggur áherslu á að ótækt sé að setja Alþingi í slíka klemmu“.
Minni hlutinn telur að sá asi sem er á því að tekjufæra 21 milljarð kr. af 26 milljarða kr. lækkun eigin fjár þegar á þessu ári sé allt annað en traustvekjandi, enda byggist tekjufærslan á „áætlun“ um hagnað af rekstri Seðlabankans á yfirstandandi ári.
Síðar í álitinu segir að „eðlilegri vinnubrögð hefðu verið að lögfesta fyrst rammann um ný eiginfjárviðmið Seðlabanka Íslands, láta því næst bankann og bankaráðið ganga frá þeim reglum og leggja þá mat á hvort og þá hve mikil tekjufærsla ætti að eiga sér stað hjá ríkissjóði vegna lækkunar á eigin fé Seðlabankans.
Minni hlutinn telur að sá asi sem er á því að tekjufæra 21 milljarð kr. af 26 milljarða kr. lækkun eigin fjár þegar á þessu ári sé allt annað en traustvekjandi, enda byggist tekjufærslan á „áætlun“ um hagnað af rekstri Seðlabankans á yfirstandandi ári. Ekki hefði þurft að byggja á „áætlun“ ef tekjufærslan hefði átt sér stað á næsta ári.
Minni hlutinn mun í ljósi þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin sitja hjá við afgreiðslu málsins og vísa ábyrgð á því á hendur stjórnarmeirihlutanum“.