„Það þjónar sameiginlegum hagsmunum að leysa þetta vandamál. Þeir sem tóku fyrsta skrefið inn eiga að taka fyrsta skrefið út, það var ekki okkar ákvörðun að byrja á þessu,“ segir Anton Vasiliev, sendiherra Rússlands á Íslandi, um viðskiptaþvinganir Íslands á Rússland.
„Það voru Vesturveldin sem áttu fyrsta leik og því miður hefur Ísland ákveðið að taka þátt í þeim þvingunum og ég vona að sú ákvörðun hafi verið tekin að vel ígrunduðu máli og eftir langa íhugun um mögulegar afleiðingar,“ segir Vasiliev í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag.
Hann heldur því fram að vestrænir fjölmiðlar hafi afvegaleitt umræðuna um innlimun Krímskagans í Rússland. Það hafi alls ekki verið nein innlimun, þar sem það hafi verið vilji fólksins á svæðinu að verða hluti af Rússlandi. Hann segir engan grunvdvöll fyrir ásökunum um að Rússar standi í stríðinu þar og ekki heldur að Rússar hafi komið nálægt því að skjóta niður farþegaþotuna MH17 frá Malaysian Airlines í fyrra.
Af þessum sökum séu viðskiptaþvinganir Vesturlanda ekki á rökum reistar. Rússar hafi hins vegar ákveðið að grípa til mótvægisaðgerða til að vernda eigin hagsmuni. „Við gerum okkur grein fyrir því að þau lönd sem verða fyrir mótvægisaðgerðum okkar finna fyrir því, líkt og við finnum afleiðingar þvingana gagnvart okkur. En við gerðum engan greinarmun á þeim þjóðum sem við ákváðum að setja viðskiptabann á. Við skiptum þeim ekki í góð lönd, slæm lönd, lítil lönd, stór lönd, það var ekki verið að beina spjótum okkar gegn neinu sérstöku landi, ekki heldur Íslandi. Við erum einfaldlega að svara viðskiptaþvingunum með viðskiptaþvingunum,“ segir hann.