Ljóst er að umtalsvert hallar á viðskiptavini fjármálafyrirtækja þegar kemur að upplýsingagjöf um verðskrár þeirra. Þörf er á enn frekari aðgerðum sem ná bæði að lækka upplýsingakostnað og birtingu á samanburðarhæfum verðupplýsingum. Ábyrgð þess að bæta hag neytenda á íslenskum fjármálamarkaði liggur á herðum allra markaðsaðila, það er fjármálafyrirtækja, hagsmunasamtaka, eftirlitsstofnana og annarra stofnana og síðast en ekki síst á herðum neytendanna sjálfra.
Þetta segir Þráinn Halldór Halldórsson, sérfræðingur á eftirlitssviði Fjármálaeftirlitsins, í grein í vefriti FME sem var útgefið í dag. Í greininni fjallar Þráinn Halldór um verðskrár viðskiptabankanna og áhrif þeirra á verðvitund neytenda.
Í greininni segir að óljós og ógagnsæ framsetning á verðupplýsingum auki upplýsingavanda neytenda og geri þeim erfiðara fyrir að taka upplýstar ákvarðanir. Stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, hafa samtals tólf verðskrár og vaxtatöflur sem samtals telja um 45 blaðsíður og eru í fleiri hundruð liðum.
„Miðlun verðupplýsinga frá fjármálastofnunum er að sjálfsögðu margvísleg, til dæmis geta viðskiptavinir fengið upplýsingar í gegnum útibú, þjónustuborð, auglýsingar eða aðrar tilkynningar. Verðskrár og vaxtatöflur með flóknu orðalagi, sem telja fleiri hundruð liða á fleiri tugum blaðsíðna eru þó líklegar til að teljast ógagnsæjar og óljósar og stuðla þannig að auknu flækjustigi þegar kemur að miðlun verðupplýsinga. Neytendur þurfa því að leggja í umtalsverða leit ásamt því að hafa lágmarksþekkingu á viðfangsefninu til að finna þær upplýsingar sem þá vantar.“
Þráinn Halldór segir að með bættri upplýsingagjöf ætti hagur neytenda að vænkast. Nauðsynlegt sé að viðmið séu til staðar um upplýsingagjöf til neytenda, til dæmis leiðbeinandi tilmæli, lög eða reglugerðir.
Greinina í heild má lesa hér.