Stefnt er á að ljúka rannsókn allra hrunmála fyrir lok þessa árs og gert er ráð fyrir því að málsmeðferð þessara mála fyrir héraðsdómi verði komin langt á veg í árslok. Þetta segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
„Mál í rannsókn í árslok (2014) voru 24 talsins. Það er töluvert mikið af þessum málum sem eru á þeim stað að það vantar mjög lítið upp á til að klára þau,“ segir Ólafur. Stefnt var að því að klára rannsókn allra mála um síðustu áramót en það markmið tókst ekki. Það sem eftir stendur segir Ólafur að eigi að klárast á þessu ári. „Það er yfirlýst markmið hér að ná að gera það. Svo eru alltaf einhverjir óvissuþættir,“ segir hann og tiltekur til dæmis ef þarf að fara með réttarbeiðnir til útlanda þá getur það tekið langan tíma.
Héraðssaksóknari tekur við öllu
Jafnvel þótt einhver mál standi eftir hjá embættinu í árslok 2015 munu þau verkefni færast yfir til héraðssaksóknaraembættisins sem til stendur að stofna, segir Ólafur Þór. Það embætti á að taka yfir rannsókn, ákærumeðferð og saksókn í efnahagsbrotamálum, sem og fleiri verkefni, samkvæmt frumvarpi innanríkisráðherra um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum, sem er nú í meðförum þingsins.
Héraðssaksóknaraembættið mun fá verkefni frá ríkissaksóknara, sérstökum saksóknara, ríkislögreglustjóra og öðrum lögregluembættum. Gert er ráð fyrir því að hvort sem mál verði enn í rannsókn, í ákærumeðferð eða fyrir dómi, þá verði þau færð til héraðssaksóknara ef og þegar lögin taka gildi.
Fjórtán hrunmál bíða ákvörðunar um saksókn
Í svari embættis sérstaks saksóknara við fyrirspurn Kjarnans í janúar síðastliðnum eru til viðbótar við þessi 24 mál sem minnst var á hér að framan fjórtán mál fullrannsökuð og bíða þess að ákvörðun verði tekin um hvort saksótt verður í þeim eða ekki.
200 af þeim málum sem hafa komið inn á borð embættisins frá stofnun þess eru svokölluð hrunmál. 139 þessara mála hefur verið vísað frá, hætt hefur verið við rannsókn eða þau sameinuð öðrum málum.
Heildarfjöldi mála sem embættið hefur fengið á sitt borð er mun meiri, eða 667 mál. Ólafur segir það oft fá litla athygli að á undanförnum árum hafi fjölgun verið mikil í öðrum efnahagsbrotum, en en efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra var sameinuð embætti sérstaks saksóknara árið 2011.