Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra og Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra munu sitja saman í nýrri tímabundinni ráðherranefnd um málefni innflytjenda og flóttafólks, sem ríkisstjórnin samþykkti að skipa í morgun.
Fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að nefndin muni einnig eiga nána samvinnu við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og svo aðra ráðherra eftir atvikum á starfstíma ráðherranefndarinnar.
Í tilkynningu stjórnvalda segir að hlutverk nefndarinnar verði að vinna markvisst að áherslum stjórnarflokkanna þriggja í málefnum innflytjenda og flóttafólks.
„Málefni innflytjenda varða málefnasvið margra ráðuneyta auk sveitarfélaga og ýmissa stofnana. Því er nauðsynlegt að tryggja öfluga samvinnu og samhæfingu í málaflokknum og er skipun ráðherranefndar liður í því,“ segir í tilkynningu stjórnvalda.
Fleiri á flótta og innlent vinnuafl skortir
Þar er rakið að það sem af er ári hafi tæplega 1.700 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi, að fjöldi flóttafólks í heiminum í ár sé kominn yfir 100 milljónir og að spár bendi til þess að þvingaðir fólksflutningar muni aukast á næstu árum vegna loftslagsbreytinga og versnandi umhverfisaðstæðna.
Í tilkynningu stjórnvalda segir einnig að árið 2021 hafi um 15,5 prósent íbúa landsins verið innflytjendur og að ef hagvaxtarspár gangi eftir sé „ljóst að erfitt verður að manna þau störf sem verða til á næstu árum með innlendu vinnuafli“.
Í tilkynningunni er einnig fjallað um þau atriði sem stjórnarflokkarnir þrír sammæltust um í stjórnarsáttmála í málefnum innflytjenda og flóttafólks og hlutverk ráðherranefndarinnar verður að vinna eftir.
Í stjórnarsáttmálanum kemur meðal annars fram að þátttaka fólks af erlendum uppruna auki fjölbreytileika, efli íslenskt samfélag og menningu og sé ein forsenda fyrir vexti efnahagslífsins og að tryggja þurfi að innflytjendur sem hér vilji búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína og þekkingu.
„Meðal áhersluatriða í málaflokknum sem birtast í stjórnarsáttmála er að mótuð verði skýr og heildstæð stefna í málefnum útlendinga, rík áhersla verði lögð á stuðning til aðlögunar við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra og að lög um útlendinga og lög um atvinnuréttindi útlendinga verði endurskoðuð. Mikilvægt er að gæta að jafnvægi milli ólíkra þátta, þ.e. í fyrsta lagi mannúðarsjónarmiða, í öðru lagi sjónarmiða um efnahagslega hagsæld, lífsgæði og vöxt og í þriðja lagi þarf að meta mannaflaþörf hér á landi til að tryggja velferðarsamfélag og velmegun þjóðar til framtíðar.
Einnig er lögð áhersla á að umsóknarferli um dvalar- og atvinnuleyfi einstaklinga sem sinna störfum sem krefjast sérfræðiþekkingar verði einfaldað. Þá verði unnið að því að auka hraða og skilvirkni í afgreiðslu mála í samræmi við flóttamannasamning Sþ, áfram verði aukið við móttöku kvótaflóttafólks og unnið verði að því að auka traust og gagnsæi um ákvarðanir útlendingayfirvalda,“ segir einnig í tilkynningu stjórnvalda.
Sigmundur Davíð setti ráðherranefnd á laggirnar 2015
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráðherranefnd um málefni flóttafólks er sett á laggirnar. Sigmundur Davíð Gunnlaugssson þáverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins lagði til að slík nefnd yrði skipuð árið 2015.
Nefnd þeirrar ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafði það að markmiði að samræma starf ráðuneyta og stofnana í málaflokkunum og meta hvernig framlag Íslands nýttist best til að ná markmiðum um mannúðaraðstoð og aðstoð við flóttamenn, hælisleitendur og innflytjendur og samfélagsmál tengd málaflokknum.