Davíð Þór Björgvinsson lagaprófessor, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur sett sem saksóknara til að gefa endurupptöku í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu umsögn, tjáði sig ítarlega um málið í sjónvarpsþætti árið 1997. Þar taldi Davíð Þór að það yrði erfitt fyrir Hæstarétt Íslands að taka málið ekki upp aftur, ef ný gögn kæmu fram sem sýndu fram á brotalamir við rannsókn málsins.
Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, lýsti sig vanhæfa í vikunni vegna fjölskyldutengsla en Örn Höskuldsson, sem var einn aðalrannsakandi málsins, er giftur móðursystur Sigríðar.
Sjónvarpsátturinn sem um ræðir hét "Undir sönnunarbyrði," og var sýndur í Ríkissjónvarpinu 29. apríl 1997, í kjölfar sýningar á heimildaþáttum Sigursteins Mássonar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið.
Davíð Þór var gestur í umræðuþættinum ásamt Ragnari Aðalsteinssyni, lögmanni Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar, Jóni Friðriki Sigurðssyni sálfræðingi, Þorsteini Pálssyni þáverandi dómsmálaráðherra og Ragnari Hall, sem þá var settur Ríkissaksóknari í málinu.
Í þættinum sagði Davíð Þór: "Það sem einkennir þetta sakamál er það að niðurstaðan er nánast eingöngu byggð á játningum sakborninga. Það er reynt með ýmsum hætti að styðja þessar játningar sýnilegum sönnunargögnum, og það gengur mjög illa. Þetta er allt mjög rækilega rakið í héraðsdóminum og tekið svo til orða að þessi sýnilegu sönnunargögn, önnur en játningar sakborninga, tengi ekki sakborninga með óyggjandi hætti við þessa atburði."
Þegar Árni Þórarinsson blaðamaður, sem stýrði umræðuþættinum, spurði Davíð Þór hvort harðræði sem sakborningarnir sættu við rannsókn málsins, ógildi málsmeðferðina, svaraði Davíð: "Þetta er ekki bara spurning um þetta harðræði, heldur líka virðist sem ýmsar réttarfarsreglur og reglur um rannsókn brotamála sem að virðast líka hafa verið brotnar. Eins og til dæmis um það að þess sé gætt að réttargæslumenn séu viðstaddir, yfirheyrslur standa lengur en reglur gera ráð fyrir, skýrslugerð er í molum og svo framvegis. Og þetta er auðvitað líka mjög alvarlegur hlutur."
Aðspurður um hvort hann teldi að skilyrði væru fyrir hendi fyrir upptöku málsins, svaraði Davíð: "Kjarninn er þessi: Þetta mál hangir allt á þessum játningum, og því skiptir það höfuðmáli þegar verið er að meta það hvort skilyrði séu til fyrir endurupptöku, að það komi fram nýjar upplýsingar til viðbótar þeim sem lágu fyrir þegar dómarnir voru kveðnir upp sem sýni það og sanni að það hafi verið stórfelldar brotalamir við rannsókn málsins. Þegar ég sagði að Hæstarétti yrði vandi á höndum, þá átti ég einfaldlega við það, að það kann að koma upp sú staða að það verði mjög erfitt fyrir þá að endurupptaka málið ekki."