Sex manns voru í morgun sýknaðir af öllum ákærðuliðum, sem snérust meðal annars um umboðssvik, í héraðsdómi Reykjavíkur í Milestone-málinu svokallaða. Á meðal þeirra sem sýknaðir voru eru bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir, fyrrum aðaleigendur Milestone. Frá þessu er greint á vef Vísis.
Málarekstur sérstaks saksóknara snérist um að greiðslur upp á 4,8 milljarða króna sem runnu út úr Milestone til Ingunnar Wernersdóttur, systur Karls og Steingríms, á árunum 2006 og 2007, hefðu verið umboðssvik. Karl, Steingrímur og Guðmundur Ólason, fyrrum forstjóri Milestone, voru ákærðir fyrir að hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að greiða Ingunni þessa upphæð út úr Milestone til að losa hana undan eign sinni í félaginu.
Auk þeirra voru þrír endurskoðendur hjá KPMG ákærðir í málinu vegna ætlaðra bókhaldsbrota. Héraðsdómur ákvað að málsvarnarlaun allra ákærðu, alls 51,4 milljón krónur, skyldu greiðast úr ríkissjóði.