Sex milljarða króna tekjur verða til af komu skemmtiferðaskipa til Íslands á hverju ári. Þetta eru niðurstöður könnunar sem Hafnasamband Íslands og fyrirtækið Cruise Iceland létu gera um borð í skemmtiferðaskipum sem höfðu viðdvöl á Ísafirði og Akureyri árið 2013 og þeim skipum sem höfðu viðkomu í Reykjavík árið 2014.
Ýmsar spurningar voru lagðar fyrir gesti og áhafnir skemmtiferðaskipanna, meðal annars um eyðslu þeirra og viðhorf til Íslands.
Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að hver farþegi versli fyrir rúmlega 12 þúsund krónur að meðaltali í hverri viðkomuhöfn skipanna á Íslandi. Hver einstaklingur í áhöfn, sem fer í land, eyðir tæplega 1.700 krónum í hverri viðkomuhöfn hér á landi.
Einnig kemur fram að um 96 prósent farþega fer í land á Íslandi, sem samsvarar 227.044 farþegum á ári. Rúmlega 44 þúsund áhafnarmeðlimir fóru líka í land. Miðað við þessar tölur eru bein efnahagsleg áhrif af komu gesta 2,86 milljarðar króna, eða tæplega 18,4 milljónir evra. Ef óbein efnahagsleg áhrif eru reiknuð til viðbótar miðað við forsendur könnunarinnar fer ávinningurinn upp í 5,33 milljarða króna.
Þá koma 433 milljónir inn í gegnum hafnargjöld sem skipin greiða, tekjur af vitagjaldi og tollskoðunargjaldi um 152 milljónir og umsýslugjöld og sorphirða 50 milljónir króna. Samtals eru þetta rétt rúmir sex milljarðar króna.
Miðað við beinan efnahagslegan ávinning verða til 136 störf vegna komu skemmtiferðaskipanna og þegar óbein áhrif eru tekin með eru störfin 238 talsins.