Samtök iðnaðarins (SI) áttu rúmlega klukkutíma langan fund með Bjarna Benediktssyni, efnahags- og fjármálaráðherra, í gær þar sem þau hvöttu hann meðal annars til að beita sér fyrir skilvirkari afgreiðslu undanþágubeiðna hjá Seðlabanka Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.
„Langur afgreiðslutími hjá gjaldeyriseftirliti bankans og óljós mörk eru á meðal þess sem veldur fjárfestum og fyrirtækjum vandræðum. Samtökin óskuðu í byrjun vikunnar eftir fundi með Bjarna Benediktssyni í kjölfar fregna af brotthvarfi höfuðstöðva hins rótgróna iðnfyrirtækis Promens, Fjármálaráðherra brást vel við beiðninni og átti langan fund með stjórn og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins síðdegis í gær um stöðu alþjóðlegra fyrirtækja á Íslandi og mikilvægi afnáms hafta hið fyrsta,“ segir í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins.
Almar Guðmundsson, formaður Samtaka iðnaðarins, segir fundinn hafa verið afar gagnlegan og rætt hafi verið um mikilvægi þess að vera með samkeppnishæft umhverfi fyrir alþjóðlega starfsemi. „Fundurinn var afar gagnlegur og báðir aðilar fóru yfir sjónarmið sín. Við ræddum hversu mikilvægt það sé að fyrirtæki í alþjóðlegri starfsemi séu í samkeppnishæfu umhverfi. Aðeins þannig verður hér til samfélag vel menntaðs fólks sem sér tækifæri í því að taka þátt í uppbyggingu alþjóðlegra fyrirtækja á Íslandi. Þeim tækifærum mun áfram fækka ef höftin verða hér viðvarandi ástand. Það er mjög flókið og erfitt er að útskýra fyrir erlendum fagfjárfestum allar þær sértæku lausnir sem Ísland hefur gripið til. Þessi lausn getur aldrei verið til langframa og hún er þegar farin að valda okkur miklum skaða. Ekki síst í formi tapaðra tækifæra til uppbyggingar verðmætra starfa og hagvaxtar í landinu,“ segir Almar.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, segir að SI séu til þjónustu reiðubúin þegar komi að afnámi fjármagnshafta, við að greina stöðu mála, og þá ekki síst hversu miklum skaða höftin hafi þegar valdið alþjóðlegum fyrirtækjum hér á landi. „Við erum ánægð með skjót viðbrögð Bjarna Benediktssonar og erum vongóð eftir þennan fund um að fjármálaráðherra vinni að mikilvægum hagsmunum fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi og gæti þess að þeir séu hafðir til hliðsjónar við áætlanir um afnám haftanna. Við höfum sagt að við erum reiðubúin til samvinnu við stjórnvöld um að greina stöðu mála varðandi samkeppnishæfni alþjóðlegra fyrirtækja hér á landi og leggja mat á umfang þess mikla skaða sem höftin hafa þegar valdið.“
Ráðherra skýrði á fundinum þá vinnu sem er í gangi í tengslum við afnám hafta og ítrekaði vilja sinn til góðs samstarfs við atvinnulífið. Forsvarsmenn SI röktu fyrir ráðherra ýmis dæmi um afleiðingar haftanna á aðildarfyrirtæki samtakanna og starfsfólk þessara fyrirtækja. Einnig bentu þeir á dæmi um hluti sem laga þurfi í framkvæmd gjaldeyrishaftanna. Svo sem hvað varðar afgreiðslu á undanþágum frá höftunum sem Seðlabankinn annast og þyrfti að vera skilvirkara að mati Samtaka iðnaðarins.