„Það torveldar auðvitað leið þeirra sem fæddir eru utan Íslands á Alþingi að til þess að komast þangað þarf íslenskan ríkisborgararétt. Búseta dugar ekki. Það er vitaskuld umhugsunarvert að sífellt stærri hluti íbúa landsins er þannig útilokaður frá þátttöku í stjórnmálum á landsvísu. Ríflega 50 þúsund búa á Íslandi með erlent ríkisfang.“
Þetta skrifar Gylfi Magnússon, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, í nýjustu Vísbendingu.
Hann skoðar meðal annars í greininni hvernig landsmenn raðast á valdastóla. „Þannig eru nú rétt tæplega 1 af hverjum 5 íbúum Íslands fæddir utan landsins. Með hlutfallslegri skiptingu þingsæta ætti það að þýða að 12 þingmenn væru það líka, þar af 4 fæddir í Póllandi. Það þarf ekki að leggjast í tímafreka rannsókn á uppruna íslenskra alþingismanna til að átta sig á að því fer fjarri að skiptingin sé þannig.“
Gylfi bendir að þrír af núverandi alþingismönnum séu fæddir í útlöndum, nánar tiltekið einn hver í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og París. „Þeir geta þó tæplega talist fulltrúar innflytjenda, að minnsta kosti bendir skráning foreldra í sama tali ekki til þess. Innflytjendur hafa þó setið á Alþingi áður fyrr, þótt ekki séu þeir margir. Einn þeirra virtist raunar inni á núverandi þingi í stutta stund eftir síðustu kosningar en datt út aftur þegar búið var að telja nógu oft í Borgarnesi.“
Hann segir að 38 af alþingismönnunum séu fæddir í Reykjavík, sem sé auðvitað talsvert hærra hlutfall en Reykvíkingar eru af íbúum landsins en ekki óeðlilegt sé tekið tillit til þess að þangað leiti konur úr nágrannasveitarfélögunum og víðar til að fæða. Það sé kannski skrýtnara að sex eða tæp 10 prósent núverandi alþingismanna eru fæddir á Akranesi. „Væntanlega er það þó bara tilviljun. En enginn alþingismaður er fæddur í Varsjá eða Vilníus. Raunar enginn fæddur utan Norðvestur-Evrópu.“
Vantar unga alþingismenn
Gylfi horfir einnig til aldursdreifingar þingmanna. „Einn alþingismaður er eldri en sjötugur en það eru 10 prósent íbúa landsins og 13 prósent þeirra sem eru á kjörskrá. Miðað við það ættu alþingismenn yfir sjötugu að vera 8. Það vantar líka unga alþingismenn. Tveir þeirra eru undir þrítugu en það eru 22 prósent kjósenda sem ætti að skila 14 þingsætum.
Alþingismannatalið dugar skammt til að flokka þingmenn eftir öðrum sjónarhornum, svo sem kynhneigð, trúarbrögðum eða í vinstr- og hægrhenta. Það liggur þó fyrir að bæði þingmenn og ráðherrar hafa komið úr hópi samkynhneigðra. Þeir eru raunar örugglega talsvert fleiri en vitað er enda héldu menn og konur slíku leyndu lengi vel. Það var mikill áfangi þegar samkynhneigð kona varð forsætisráðherra. Mikilvægt skref fyrir bæði konur og samkynhneigða og auðvitað þjóðina alla. Þegar sá múr hafði verið brotinn var þó eins og hann skipti eftir það sáralitlu máli, að minnsta kosti er varla nokkur þjóðmálaumræða um kynhneigð íslenskra stjórnmálamanna nú og það var nánast hversdagslegt skref þegar önnur konan varð forsætisráðherra. Það er auðvitað eins og það á að vera.“
Allir forsetar Íslands hægrhentir
Gylfi telur að sum flokkun skipti litlu ef nokkru máli. Þannig hafi allir forsetar lýðveldisins verið hægrhentir.
„Það leiða líklega fáir hugann að því. Kannski munu vinstrhentir fagna í skamman tíma þegar og ef sá fyrsti úr þeirra hópi nær kjöri en þar með verður það líka útrætt mál. Sex af síðustu tólf forsetum Bandaríkjanna hafa hins vegar verið vinstrhentir. Það er skemmtileg staðreynd sem þó skiptir varla nokkru máli. Nema kannski fyrir Gerald Ford, einn þeirra vinstrhentu. Ein skýring – reyndar langsótt – á tapi hans í forsetakosningunum 1976 var að ímynd hans hefði liðið fyrir þetta. Þessi kenning virðist þó ekki standast nánari skoðun enda hafa aðrir vinstrhentir Bandaríkjaforsetar ekki lent í því sama. Almennt eru stjórnmálamenn auðvitað ekki flokkaðir eftir því með hvorri höndinni þeir undirrita embættiseiðinn enda engin ástæða til þess. Það skiptir meira máli hvort þeir teljast vinstra eða hægra megin á litrófi stjórnmálanna.“
Fólk raðast ekki upp við víglínur íslenskra stjórnmála eftir trúarbrögðum
Hann bendir á að flokkun eftir trúarbrögðum geti hins vegar verið stórmál. „Spyrjið bara Norður-Íra. Jafnvel þar virðast trúarbrögðin þó smám saman vera farin að skipta minna máli. Að minnsta kosti gerðust þau undur og stórmerki nú í vor að flokkur kaþólikka fékk í fyrsta sinn fleiri þingmenn á norður-írska þinginu en helsti keppinauturinn, flokkur mótmælenda ... og fáir kipptu sér upp við það. Skipting eftir tungumálum getur verið enn erfiðari, spyrjið bara Belga eða Kanadamenn.“
Hann segir að á Íslandi hafi auðvitað nánast allir verið í þjóðkirkjunni lengi vel en jafnvel eftir að það breyttist hafi sáralítil umræða verið um trú stjórnmálamanna.
„Kannski skýrir það lítinn áhuga landsmanna á trúmálum stjórnmálafólks að fólk raðast ekki upp við víglínur íslenskra stjórnmála eftir trúarbrögðum og stjórnmálamenn tala flestir lítið sem ekkert um trú. Þjóðin saup hveljur þegar forsætisráðherra bað Guð að blessa Ísland haustið 2009. Það mundi enginn eftir nýlegum fordæmum fyrir slíku tali. Kannski var hann samt bænheyrður, að minnsta kosti lenti hagkerfið á löppunum á endanum,“ skrifar hann.
Hægt er að lesa grein Gylfa í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.