Kynfræðingurinn Sigríður Dögg Arnardóttir, betur þekkt sem Sigga Dögg, gagnrýnir leikfangaverslunina Toys R Us harðlega fyrir að auglýsa sérstakan barnabrúðarkjól til sölu fyrir öskudaginn. Kjóllinn er auglýstur í bæklingi sem leikfangaverslunin sendi frá sér, sem og á heimasíðu Toys R Us.
Af heimasíðu Toys R Us þar sem kjóllinn umdeildi er auglýstur til sölu.
Í færslu sinni á Facebook spyr Sigga Dögg hvort það sé ekki tímaskekkja að árið 2015 skuli vera framleiddur og seldur búningur fyrir stúlkur sem barnabrúðir. „Þessi bæklingur frá Toys R Us kom heim til mín nýlega og ég andvarpaði yfir Spiderman kjólnum (sem og öðrum ofurhetjum í kjólum, ég meina, hvenær hefur þú séð Batman crossdressa? Ég hlýt að hafa misst af þeirri mynd) en þetta finnst mér ekki í lagi. Litlar stelpur í hvítum kjól því þær ætla einhvertíma að gifta sig ? Er þetta dúllulegt? Í öðrum heimshlutum berjumst við gegn þessu en hér þá klöppum við. Ég á ekki til orð.
Ofurhetjur bjarga fólki. Brúður fer í förðun, óþægilegan kjól og vonandi á ágætis framtíð með makanum sem hún (vonandi) valdi sér sjálf. Það biður enginn strákur um að vera brúðgumi. Og afhverju sjáum við ekki stráka í Frozen kjólum? Nú eða bara til að gæta jafnræðis, af hverju er ekki til stráka Frozen búningur með buxum?
Ég er eiginlega bara komin með nóg.“