Sigmar Guðmundsson, fyrrum ritstjóri Kastljóss, mun stýra nýjum morgunþætti á Rás 2 í vetur ásamt Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur, samkvæmt heimildum Kjarnans. Sigmar ákvað að hætta í Kastljósinu fyrr á þessu ári og var Þóra Arnórsdóttir ráðin í hans stað.
Síðastliðinn vetur var morgunþátturinn Morgunútgáfan, í umsjón Óðins Jónssonar, Guðrúnar Sóleyjar og Hrafnhildar Halldórsdóttur á samtengdri dagskrá Rásar 1 og 2. Nú hefur verið ákveðið að hætta samtengdri útsendingu.
Sigmar greindi frá því í byrjun júlí að hann myndi ekki snúa aftur í Kastljósið í haust. Sigmar hafði þá verið ritstjóri þáttarins um nokkurra ára skeið en hann tilkynnti í maí að hann væri farinn í leyfi til að fara í áfengismeðferð á Vogi vegna glímu sinnar við alkóhólisma.
Í samtali við Vísi vegna þessa sagðist Sigmar ekki ætla að vera ritstjóri þáttarins næsta vetur. „Það hentar mér ekki. Eins og menn vita fór ég í meðferð og er að taka á mínum málum. Stressið og álagið og þessir löngu vinnudagar henta mér engan veginn meðan ég sinni batanum og fjölskyldunni. Um þetta erum við, ég og yfirmenn mínir, algjörlega sammála. Ég hef óskað eftir þægilegri innivinnu á skrifstofutíma.“
Kjarninn greindi frá því í vikunni að Baldvin Þór Bergsson hefði verið ráðinn einn umsjónarmanna Kastljóss í stað Sigmars. Baldvin starfaði um árabil sem fréttastjóri og vakstjóri á fréttastofu RÚV. Undanfarin ár hefur hann búið erlendis, meðal annars í Svíþjóð. Baldvin hefur skrifað vinsælar fréttaskýringar fyrir Kjarnann undanfarin misseri. Baldvin mun koma til starfa 24. ágúst næstkomandi.
Þann 24. júlí var tilkynnt að Þóra Arnórsdóttir, frétta- og dagskrárgerðarkona, hefði verið ráðin ritstjóri Kastljóss. Þóra hafði áður gegnt starfi aðstoðarritstjóra fréttaskýringarþáttarins og verið ritstjóri hans í fjarveru Sigmars.