Sigmar Guðmundsson mun ekki snúa aftur í Kastljósið í haust. Sigmar hefur verið ritstjóri þáttarins um nokkurra ára skeið en hann tilkynnti í maí að hann væri farinn í leyfi til að fara í áfengismeðferð á Vogi vegna glímu sinnar við alkóhólisma. Sigmar staðfestir þetta við Vísi. Ekki liggi fyrir hver taki við starfi ritstjóra en Þóra Arnórsdóttir hefur gegnt starfinu í fjarveru Sigmars.
Í samtali við Vísi segist Sigmar ekki ætla að vera ritstjóri þáttarins næsta vetur. "Það hentar mér ekki. Eins og menn vita fór ég í meðferð og er að taka á mínum málum. Stressið og álagið og þessir löngu vinnudagar henta mér engan veginn meðan ég sinni batanum og fjölskyldunni. Um þetta erum við, ég og yfirmenn mínir, algjörlega sammála. Ég hef óskað eftir þægilegri innivinnu á skrifstofutíma." Hann segir það ekki liggja fyrir hver taki við, en eðlilegast sé að það sé Þóra. "En ég hef ekki hugmynd um að hvort hún hafi áhuga á því. Því þetta starf er langt því frá að vera fjölskylduvænt.“
Í fréttinni segir einnig að fleiri breytingar séu fyrirhugaðar varðandi Kastljós og að hugmyndir séu uppi um að tengja þáttinn nánar við menningarþáttinn Djöflaeyjuna með innslögum. Djöflaeyjan myndi þá leggjast af í núverandi mynd.