Jóhannes Kr. Kristjánsson, Sigmar Guðmundsson og Kastljós gerðust ekki sek um brot á siðareglum Blaðamannafélags Íslands með umfjöllun sinni um óhefðbundnar lækningar. Þetta kemur fram í nýjum úrskurði siðanefndar Blaðamannafélagsins.
Ólafur Einarsson og Björg Marteinsdóttir kærðu Jóhannes, Sigmar og Kastljós/RÚV til siðanefndarinnar þann 2. maí síðastliðinn, en þau og fyrirtæki sem þau reka voru meðal annars umfjöllunarefnið. Umfjöllun Kastljóssins um óhefðbundnar lækningar, sem vakti mikla athygli í mars á þessu ári, var meðal annars byggð á efni úr faldri myndavél. Fyrsta kæruatriðið laut að því að allt efnið úr myndavélinni væri ekki birt strax á vef RÚV.
Einnig kærðu Ólafur og Björg að í umfjöllun Kastljós „hafi því verið haldið fram að kærandi Ólafur væri, beint og óbeint, að selja „gagnslausan tækjabúnað“ og „efni með loforði um lækningu.““ Þá kærðu þau að ekki hafi verið tilgreint á þessum tækjabúnaði væri 60 daga skilaréttur, því það hefði gefið raunsannari mynd af starfsemi kærendanna. Ekki hafi verið að þvinga gagnslausum tækjabúnaði upp á fólk.
Þau kærðu einnig að þau hafi verið sögð eða vænd um að selja þennan tækjabúnað „undir borðið“. Í fimmta og síðasta lagi kærðu þau að umfjöllun Kastljóss hafi haft í för með sér að saklausir aðilar hafi beðið skaða af, vegna þess að gleraugnaverslun þeirra Ólafs og Bjargar, Sjónarhóll, hafi verið tengd starfsemi þeirra í félaginu sem var til umfjöllunar, en það félag heitir Allt hitt ehf (Heilsuhringurinn).
Sigmar og Jóhannes svöruðu kæruliðunum. Þeir sögðu að tæknilegir örðugleikar hafi valdið því að efnið í heild sinni birtist ekki strax á vefnum, síðar hafi allt verið birt. Þeir segjast ekki hafa talað um gagnsleysi tækis og bentu á að ummæli um gagnslausan tækjabúnað og lækningu hafi komið fram í lýsingu á viðskiptum á heimsvísu, ekki um þau Ólaf og Björgu sérstaklega. Þá segja þeir að það að tala um sölu undir borðið hafi verið eðlileg málnotkun og kærendurnir hafi ekki fengið nauðsynleg leyfi og CE vottanir.
Að lokum sögðu þeir að skýr tenging við fyrirtækið Sjónarhól megi finna á heimasíðu Heilsuhringsins, auk þess sem Björg og Ólafur hafi sjálf tengt nöfn sín og Sjónarhóls saman í tengslum við málið.
Siðanefnd Blaðamannafélagsins tekur undir öll svör þeirra Sigmars og Jóhannesar.