Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var gestur í fréttum Channel 4 sjónvarpsstöðvarinnar í Bretlandi í gær. Fréttakona Channel 4 spurði Sigmund Davíð meðal annars um hvaða lærdóm aðrar þjóðir gætu dregið af reynslu Íslendinga í kjölfar efnahagskrísunnar 2008. Forsætisráðherra sagði Breta og önnur ríki geta litið til endurbóta sem gerðar hafa verið á fjármálamarkaði. Hann tók fram að hann vildi ekki segja Bretum hvað þeir ættu að gera hvað varðar boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu og að erfitt væri að heimfæra aðstæður á Íslandi til annarra ríkja. Honum þætti þó löggjafar Evrópuríkja ekki hafa gert nóg eftir hrun til þess að koma í veg fyrir aðra efnahagskrísu.
Sigmundur Davíð sagði reynslu Íslands utan Evrópusambandsins vera góða. Í krafti þess hafi verið hægt að endurbyggja efnahaginn, með eigin gjaldmiðli og valdi yfir löggjöf og auðlindum landsins. Þá sagði Sigmundur Davíð efnahag Íslands standa vel að vígi í dag, ferðamönnum hafi fjölgað mikið, atvinnuleysið sé lágt, verðbólga einnig og kaupmáttur almennings standi í hæstu hæðum. „Við þurfum þó að auka fjárfestingu og utanríkisviðskipti. Þess vegna ætlum við að losa gjaldeyrishöftin,“ sagði forsætisráðherra. Viðtalið má sjá í heild sinni hér að neðan. Það byrjar á mínútu 1:15.