„Ef almenn óánægja yrði til þess að byltingarflokkar og flokkar með mjög óljósar hugmyndir um lýðræði og flokkar sem vilja umbylta grunnstoðum samfélagsins nái áhrifum þá væri það mikið áhyggjuefni fyrir samfélagið allt,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um fylgi Pírata og skoðanakannanir undanfarið. Þetta kemur fram í viðtali við Sigmund Davíð í DV í dag, sem Kolbrún Bergþórsdóttir ritstjóri blaðsins tekur. DV var dreift ókeypis í öll hús í dag.
Hann segist ekki telja að fylgi Pírata muni haldast og segist ekki hafa miklar áhyggjur af fylgi Framsóknarflokksins. Ef hins vegar fylgi Pírata héldist fram yfir kjördag „þá myndi taka við allt annars konar stefna í samfélaginu þar sem erfitt gæti verið að viðhalda þeim gildum sem við höfum þó verið að sækjast eftir og byggja upp um áratuga skeið.“
Í viðtalinu er farið um víðan völl. Sigmundur er spurður að því hvernig honum hafi liðið að halda ræðu á 17. júní þegar mótmælt var á Austurvelli. „Þarna var fólk sem vildi ekki að á framfæri kæmust skilaboð þar sem leitast var við að sætta fólk og draga fram það sem sameinar okkur sem þjóð heldur vildi þagga niður í þeim,“ segir hann og segist hafa sárnað mest og þótt ótrúlegt að sjá „menn hamast svo mjög þegar stúlknakór söng ættjarðarlög og fjallkonan flutti ljóð. Þarna var ungt fólk sem hafði dögum og vikum saman undirbúið sig fyrir þátttöku í hátíðarhöldunum og fékk ekki að njóta þess.“
Sigmundur segir mótmælin hafa dregið fram stærra vandamál, „sem er virðingarleysið sem er orðið ríkjandi hjá ákveðnum hópi, ekki mjög stórum en háværum. Sá hávaði birtist ekki alltaf með trumbuslætti og öskrum á Austurvelli heldur miklu oftar í fjölmiðlum og á netinu þar sem sá sem er óvægnastur og yfirlýsingarglaðastur nær mestri athygli.“