Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra syrgir rússneska stjórnarandstæðinginn Boris Nemtsov á Facebook síðu sinni, og segist vonast til þess að morðið á honum verði til þess að vekja athygli á mikilvægi frjálslyndis, friðar og frelsis.
Sigmundur Davíð reyndi að fá Nemtsov til Íslands á tíunda áratugnum til þess að halda fyrirlestur, en að því varð ekki. Hann segir hann hafa verið einstakan prinsippmann sem hafi ekki látið „hræða sig frá því að lýsa skoðun sinni og vekja umræðu um mál sem aðrir töldu að ekki mætti ræða“.
„Mér brá mjög að heyra að rússneski stjórnmálamaðurinn Borís Nemtsov hefði verið myrtur í gærkvöldi. Ég hef fylgst með Nemtsov í meira en 20 ár og var mikill aðdáandi hans á tíunda áratugnum.
Nemtsov var einstakur prinsippmaður sem lét aldrei hræða sig frá því að lýsa skoðun sinni og vekja umræðu um mál sem aðrir töldu að ekki mætti ræða. Nemtsov var snillingur á sviði eðlisfræði og stærðfræði og hóf starfsferil sinn sem vísindamaður. Ungur varð hann mikilsvirtur uppfinningamaður og ritaði fjölmargar fræðigreinar.
Eftir Tsjernobíl-slysið 1986 fór hann að láta til sín taka í stjórnmálum og leiddi árangursríka baráttu gegn byggingu kjarnorkuvers í heimahéraði sínu. Hann lagði svo til atlögu við valdakerfi kommúnistaflokks Sóvíetríkjanna og bauð sig fram til þings sem umbótasinni sem talaði óhikað fyrir frelsi og lýðræðisvæðingu. Hann náði ekki kjöri í fyrstu tilraun en ári seinna var hann kjörinn á þing rússneska sóvétlýðveldisins.
Í því kjöri hafði hann betur gegn gamla ,,flokksapparati“ Kommúnistaflokksins. Ári seinna liðu Sóvíetríkin undir lok og Nemtsov varð ötull umbótasinni í hinu nýja Rússlandi sem þingmaður, héraðsstjóri, aðstoðarforsætisráðherra og flokksformaður.
Um miðjan tíunda áratuginn skrifaði ég Borís Nemtsov bréf og kannaði hvort hann gæti hugsað sér að koma til Íslands og halda fyrirlestur. Því miður varð ekki af því en mér til ánægju náði Nemtsov mikilli hylli í heimalandinu um það leyti og var talinn líklegur til að verða kjörinn forseti Rússlands árið 2000. Það breyttist með rússnesku fjármálakrísunni 1998 en Nemtsov hélt áfram baráttu sinni fyrir umbótum og friði.
Ekki náði ég að hitta Borís Nemtsov þótt við höfum verið formenn systurflokka en þrautsegja hans verður áfram mikilvæg hvatning og vonandi mun þessi sorglegi atburður verða til að vekja athygli á mikilvægi frjálslyndis, friðar og frelsis.“