Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í ræðu sinni á Viðskiptaþingi í dag að þrýstingurinn um að losa fjármagnshöftin kæmi ekki frá heimilunum, þar sem þau fyndu lítið lítið fyrir þeim með beinum hætti. Til lengdar stafaði hins vegar af þeim mikil hætta. „Þegar fjármagnshöft hafa verið við lýði í svo langan tíma er hætta á að okkur fari að líða vel í því skjóli sem þau veita. Í kringum höftin verður til iðnaður fólks, hverra hæfileikar væru betur nýttir í virðisaukandi starfsemi, verð á mörkuðum bjagast vegna þeirra, samkeppnishæfni þjóðarinnar rýrist, trúverðugleiki Íslands ber hnekki og þau gera okkur erfiðara um vik að skapa þeirri kynslóð sem er að vaxa úr grasi ákjósanleg skilyrði til að búa á Íslandi,“ sagði Sigmundur Davíð.
Hann sagði enn fremur að það væri mikilvægt að horfa til þess að skilyrði fyrir afnámi haftanna væri að skuldaskilum hina föllnu banka yrði lokið með þeim hætti að þau myndu ekki ógna efnahagslegum stöðugleika. „Þar er að sjálfsögðu nauðsynlegt að líta til margra samverkandi þátta, en allir sem hér sitja þekkja að það er nauðsynlegt skilyrði fyrir afnámi haftanna að skuldaskilum fallinna banka sé lokið með þeim hætti að þau ógni ekki efnahagslegum stöðugleika. Af því verður enginn afsláttur gefinn,“ sagði Sigmundur Davíð.
Hann koma víða við í ræðunni, og sagði meðal annars að stjórnvöld bæru ekki ábyrgð á þeirri launaþróun sem hefði orðið að undanförnu, þar sem launhækkanir hefðu verið meiri en hagkerfið réði við. „Því hefur verið haldið fram að kjarasamningar ríkisins hafi raskað jafnvægi á vinnumarkaði og að hækkanir á launum ríkisstarfsmanna hafi verið úr takti við aðra launaþróun. Því fer fjarri. Tölulegar upplýsingar um launaþróun styðja ekki slíkar fullyrðingar,“ sagði Sigmundur Davíð.