Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að stundum virðist sem fremur sé lögð áhersla á hið neikvæða á Íslandi í stað þess að meta það sem vel hefur reynst. Vissulega sé hægt að gera betur á mörgum sviðum en besta leiðin til þess sú að „meta það sem vel hefur reynst og gera enn meira af því en minna af hinu.“ Þetta kom fram í hátíðarávarpi forsætisráðherra sem hann flutti á Austurvelli í dag. Hópur fólks mótmælti ríkisstjórninni á meðan að á ávarpinu stóð.
Í því fór Sigmundur Davíð um víðan völl. Hann sagði að síðustu misseri hafi gefið Íslendingum enn frekari ástæðu til að líta björtum augum fram á veginn. „Ísland stendur nú á ný upprétt í samfélagi þjóða eftir að hafa sigrast á mestu efnahagserfiðleikum síðari tíma með elju og einlægum ásetningi.
Búið er að lækka skuldir heimilanna, störfum hefur fjölgað og hafa aldrei verið fleiri, kaupmáttur eru orðinn meiri en hann hefur áður verið í landinu, verðbólga er lág og nú blasir við að hægt verði að lækka skuldir ríkisins vegna fjármagns sem renna mun í ríkissjóð til að gera afnám hafta mögulegt. Það kemur samfélaginu öllu til góða.
Þessi vatnaskil þýða að við getum einbeitt okkur að því að horfa fram á við. Nýtt tækifærin sem bíða og þær áskoranir sem felast í því að gera gott samfélag betra. Þar verður alltaf af nógu að taka – bæði til að viðhalda og styrkja innviðina og bæta kjörin, ekki hvað síst þeirra sem minnst hafa.“
Of mikil áhersla á hið neikvæða
Forsætisráðherra var á þjóðlegu nótunum og talaði mikilvægi þjóðhátíðardagsins 17. júní og íslenska fánans. Sigmundur Davíð sagði daginn verða dag til að minnast þeirra brautryðjenda sem fyrr á tíð skópu framtíð þjóðarinnar með baráttu sinni og dagur til að virkja samtakamátt okkar og setja markiðin enn hærra en áður til heilla fyrir framtíðarkynslóðir landsins.
„Íslendingar hafa þegar náð árangri sem hlýtur að teljast merkilegur. Það er nánast sama um hvaða svið er að ræða, hvort sem það er keppni í íþróttum, listir eða vísindi, okkar litla samfélag á fjölda fulltrúa sem skara fram úr á heimsvísu. Og það er mikilvægt að muna að við getum nýtt sama drifkraft til framfara innanlands.“
Í ræðunni sagði Sigmundur að í alþjóðlegum samanburði væri Ísland talið öruggasta land í heimi, í þriðja sæti yfir þau lönd sem best þætti að búa, jöfn réttindir allra væru betur tryggð en annar staðar, jöfnuður væri meiri og að mati Sameinuðu þjóðanna væru Íslendingar sú þjóð sem hefði einna mesta ástæðu til að vera hamingjusöm.
„Raunar er bara eitt land annað sem telst búa við jafn mikil lífsgæði og Íslendingar. En hvað finnst okkur sjálfum?
Stundum virðist sem fremur sé lögð áhersla á hið neikvæða en að meta það sem vel hefur reynst og nýta þann árangur til að gera enn betur. Við getum vissulega gert betur á mörgum sviðum en besta leiðin til þess er sú að meta það sem vel hefur reynst og gera enn meira af því en minna af hinu. Við eigum líka að leyfa okkur að gleðjast yfir því góða á hátíðlegri stund eins og þessari og láta gleðina veita okkur hvatningu til áframhaldandi framfara.
Við vitum auðvitað öll að raunveruleg hamingja verður aldrei mæld í tölum. En samt er rétt að minnast þess gamla vísdóms að glöggt er gests augað. Þessi samanburður segir okkur að hér á landi séu rík tilefni til hamingju. Það er svo okkar að nálgast þau með opnum huga, sjá þau og nýta.
Eins og ég hef rakið hefur Ísland spjarað sig vel frá því að landið varð sjálfstætt og fullvalda ríki. Það er ánægjulegt að sjá að Danir hafa líka spjarað sig ljómandi vel eftir aðskilnaðinn, en Danmörk fylgir raunar næst á eftir Íslandi á hamingjulista Sameinuðu þjóðanna.
Á morgun fara fram kosningar í Danmörku. Þegar forsætisráðherra landsins boðaði til kosninga hafði hann á orði að Danmörk væri besta land í heimi. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar gerði engan ágreining um það. Danmörk væri svo sannarlega besta land í heimi ...en það gæti orðið enn betra.
Í heildarsamhengi hlutanna hljótum við Íslendingar að geta verið sammála um að Ísland sé að minnsta kosti nokkuð gott land og líklega bara mjög gott land ...þótt það geti vissulega orðið enn betra.“
Viljum öllu bæta samfélagið
Sigmundur Davíð sagði að þjóðhátíðardagurinn minni okkur öll á við allir Íslendingar eigi að minnsta kosti eitt sameiginlegt: að vilja bæta landið, samfélagið og búa framtíðarkynslóðum örugga framtíð í góðu landi. „Hvort sem við lifum og störfum í höfuðborginni, ræktum landið, sækjum sjóinn, tökum á móti ferðamönnum eða sinnum öðrum störfum þá erum við öll að vinna í þágu samfélagsins. Árangur okkar byggist á því að við skiptum með okkur verkum en vinnum þó öll saman.
Þessi dagur minnir okkur því fyrst og síðast á þá sameiginlegu skyldu okkar og hugsjón sem þjóð, að standa vörð um árangur fyrri kynslóða sem við njótum í dag, og að skila komandi kynslóðum enn betra samfélagi, svo gott verði að búa á Íslandi til framtíðar.“