Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að á síðustu tveimur árum hafi þingið tekist á við vandamál og úrlausn þeirra en nú sé Ísland komið í uppbyggingar-gírinn. Það sjáist meðal annars á miklum áhuga á að fjárfesta víða um land og fjölgun starfa sem haldi áfram með aukinni framleiðni og hærri launum. „Landsmenn hafa mikla ástæðu til að vera bjartsýnir,“ sagði forsætisráðherrann í viðtali í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í dag, í tilefni af þinglokum í dag. Þar svaraði hann meðal annars spurningu um seinni hluta kjörtímabilsins.
Sigmundur Davíð sagðist ekki vera að tala um ákveðin verkefni heldur almennt, þegar hann var spurður hvort hann ætti sérstaklega við fyrirhugað álver í Skagabyggð í tali sínu um uppbyggingu og aukna fjárfestingu á Íslandi. „Það eru mörg stór verkefni í farvatninu. Þau verða sjálfsagt ekki öll að veruleika og það er ekki þingmanna að kveða úr um hvað verður og hvað ekki, heldur að búa til aðstæður þannig að menn vilji koma hingað og fjárfesta,“ sagði hann. Spurður út í fyrirhugað álver ítrekaði hann fyrra svar og sagði það ekki þingmanna að ákveða um einstök verkefni heldur mynda rétta hvata og aðstæður til uppbyggingar.
Forsætisráðherra var spurður að því hvort hann ætlaði sér að gefa kost á sér áfram eftir yfirstandandi kjörtímabil, eftir tvö ár. „Ég ætla að gera það, já,“ sagði hann afdráttarlaust. Hann sagði starf þingmanns, og ekki síst forsætisráðherra, ekki ólíkt starfi fréttamanns sem hann þekkti frá fyrri tíð. Það krefist þess meðal annars að fara úr einu verkefni í annað og hann þurfi að setja sig inn í mismunandi hluti jafnóðum. „Maður er alltaf að læra og uppgvöta eitthvað nýtt,“ sagði hann og bætti við að það kæti þegar hann sjái árangur af störfum sínum.