Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ræddi við Má Guðmundsson seðlabankastjóra vegna yfirvofandi flutnings Promens úr landi. Hann segir ekki allt sem sýnist í máli fyrirtækisins. Þetta kom fram í svari Sigmundar við fyrirspurn Árna Páls Árnasonar á Alþingi í dag.
Árni Páll spurði Sigmund um flutning þekkingarfyrirtækja úr landi, og hvort flutningar fyrirtækja eins og Promens væru ekki áhyggjuefni. Hann ræddi málið vegna frétta af því að plastframleiðslufyrirtækið hafi ákveðið að flytja höfuðstöðvar sínar frá Íslandi eftir að Seðlabankinn hafnaði beiðni um undanþágu frá gjaldeyrishöftum.
Sigmundur Davíð sagði Promens hafa farið fram á að kaupa erlendan gjaldeyri á afslætti til þess að ráðast í fjárfestingar erlendis. Slíkt væri ekki í verkahring opinberra aðila, heldur hefði fyrirtækið vel getað tekið lán fyrir slíkum fjárfestingum. Fyrirtækinu hafi ekki verið gert ómögulegt að starfa á Íslandi, heldur hafi ákvörðun um flutning fyrirtækisins hafa komið í kjölfar þess að það var selt til útlanda.
SI vilja fund vegna grafalvarlegrar stöðu
Fjölmiðlar hafa greint frá því að ákveðið var að selja fyrirtækið úr landi vegna þess að Seðlabankinn hafnaði beiðni um að flytja 30 til 50 milljónir evra úr landi til frekari fjárfestinga.
Fyrr í dag óskuðu Samtök iðnaðarins eftir fundi með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra vegna „skaðlegra áhrifa gjaldeyrishaftanna á íslensk iðnfyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni og á hraðvaxandi fyrirtæki á sviði nýsköpunar.“
Samtökin lýstu sig reiðubúin til samvinnu við stjórnvöld um að greina stöðu mála varðandi samkeppnishæfni alþjóðlegra fyrirtækja hér á landi, leggja mat á umfang þess skaða sem höftin hafa þegar valdið og að útfæra mögulegar leiðir til að bæta stöðuna innan ásættanlegs tímaramma.
„Um er að ræða enn eitt dæmið um alvarlegar afleiðingar þess að loka landinu með höftum. Raunveruleg merki sjást nú um að samkeppnisstaða Íslands og möguleikar til uppbyggingar alþjóðlegra fyrirtækja í landinu séu í hættu. Promens er eitt stærsta og öflugasta fyrirtæki landsins og það verður mikill missir af höfuðstöðvum þess úr landi. Slík fyrirtæki ættu að sjá sér hag í að stýra uppbyggingu sinni frá Íslandi. Því miður vitum við til þess að fleiri fyrirtæki, bæði stór og smá, sem starfa í alþjóðlegu umhverfi íhuga að flytja höfuðstöðvar sínar burt héðan. Þetta er grafalvarleg staða og það er ekki hægt að draga það lengur að bregðast við. Í umhverfinu á Íslandi þurfa að felast fleiri tækifæri samfara auknu menntunarstigi og eflingu iðnmenntunar,“ er haft eftir Almari Guðmundssyni framkvæmdastjóra SI í fréttatilkynningu samtakanna.