Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er enn þeirrar skoðunar að áætlun um losun fjármagnshafta eigi að vera leynileg svo hún verði ekki skemmd. Erlendir kröfuhafar hafi mikla hagsmuni af því að nálgast upplýsingar um afstöðu stjórnvalda til að geta hámarkað endurheimtir sínar. Þetta kom fram í svari hans við óundirbúinni fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, um málið á Alþingi í dag.
„Þegar menn spila sóknarbolta þá byrja þeir ekki á að kynna sóknaráætlunina fyrir gagnaðilanum,“ sagði forsætisráðherra. Hann spurði síðan sjálfan sig um hvort að það væri raunverulega um keppni að ræða í þessu máli, hvort erlendir kröfuhafar væru gagnaðilar í því. Sigmundur Davíð svaraði spurningunni síðan svona: „Því verð ég að svara játandi“. Að minnsta kosti hluti kröfuhafa væru eðlilega að gæta þeirra miklu hagsmuna sem þeir ættu undir og væru aðrir hagsmunir en íslensku þjóðarinnar.
Opnun gæti skemmt stöðuna
Katrín spurði hvort ekki væri mikilvægt að áætlun um losun hafta og áætlun um hvað taki við eftir að slík skref verði stigin yrðu opinber. Hún rifjaði upp að Sigmundur Davíð hefði áður sagt að hann væri þeirrar skoðunar að þessar áætlanir ættu að vera leynilegar.
Sigmundur Davíð svaraði því til að „eins og háttvirtur þingmaður veit eru um gríðarlega hagsmuni að ræða“. Erlendir kröfuhafar hefðu ráðið lögmenn, almannatengla og fleiri til að gæta þeirra hagsmuna. Meðal þess sem þeir leggi áherslu á sé að falast eftir upplýsingum um afstöðu stjórnvalda til haftalosunar til að geta hámarkað endurheimtir sínar og um leið veikt stöðu Íslands í málinu. „Ég er enn sömu skoðunar og ég var á síðasta ári [...]að mikilvægt sé að þessi vinna verði ekki gerð opinber fyrr en hún er komin á það stig að ekki sé hætta á því að hún verði skemmd,“ sagði Sigmundur Davíð.