Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, skýrir ört minnkandi stuðning almennings við ríkisstjórnina og stjórnarflokkanna á kjörtímabilinu í áhugaverðu viðtali sem birtist á Eyjunni í dag.
Aðspurður um hinn þverrandi stuðning, svarar forsætisráðherra í samtali við blaðamann Eyjunnar: „Að einhverju leyti skýrist þetta kannski á þessu rofi milli raunveruleika og skynjunar eða umfjöllunar. En þarna er líka hollt að líta til annarra landa. Það eru framkvæmdar sambærilegar kannanir til dæmis í Bretlandi fyrir kosningarnar þar, þar sem mátti sjá svipaðar niðurstöður. Stjórnmálamenn eru ekkert sérstaklega vel liðnir á Vesturlöndum þessa dagana. Það tekur á sig ýmsar birtingarmyndir, en almennt er ríkjandi mjög mikið vantraust í garð stjórnmálamanna og flokka. Sérð það líka náttúrlega á þessum fylgiskönnunum og þessu ótrúlega fylgi sem Píratar fá.“
Þá segir Sigmundur Davíð að neikvæð umræða, sem sé oft byggð á rangfærslum, hafi sín áhrif. „Auk þess er alveg gegnumgangandi, og þetta á ekki bara við hér á Íslandi en þetta hefur verið sérstaklega áberandi hér undanfarin ár, að það er verið að ala á tortryggni í garð alls og allra. Draga upp þá mynd af öllu sem gert er, að það hljóti að vera eitthvað grunsamlegt þar að baki. Allt frá breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu að lækkun tolla og gjalda þar sem er fullyrt, einfaldlega ranglega, að verið sé að hygla fólki með hærri tekjur þegar sérstaklega er verið að huga að þeim sem eru með lægri tekjurnar, eins og tölurnar sýna okkur. Þetta stöðuga niðurrifstal auðvitað hefur sín áhrif. Það er búið að vera ráðandi hér neikvæðni og tortryggni sem getur orðið mjög skaðleg,“ segir forsætisráðherra í samtali við Eyjuna.
Raunveruleikinn eitt, tilfinningin eitthvað annað
Aðspurður um af hverju ónægjan í samfélaginu með ástand mála stafi, og af hverju fólk sjái sig knúið til að fara í verkföll til að knýja fram kjarabætur, svarar Sigmundur Davíð: „Raunveruleikinn er oft eitt og svo er tilfinningin eitthvað annað. Því er mjög oft haldið á lofti núna, ranglega, að misskipting sé að aukast hér á landi. Auðvitað er ekki fullkominn jöfnuður hér frekar en annars staðar, en hann er þó meiri hér en víðast hvar, ef ekki alls staðar annars staðar. Og hefur verið að lagast enn í tíð þessarar ríkisstjórnar. En stöðugt er fullyrt að hið gagnstæða sé raunin.“
Þjóðin á að vera bjartsýn og jákvæð
Þá tekur Sigmundur Davíð undir það að ríkisstjórninni hafi mistekist að „virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hafi íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið,“ eins og það er orðað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna.
„Það er alveg rétt að það er mikið sundurlyndi ríkjandi. Það satt best að segja ætti ekki að þurfa að vera eins mikið og það er. Bjartsýni og jákvæðni ætti að vera ríkjandi. Þegar við berum þróunina hér á landi saman við þróunina nánast alls staðar annars staðar, þá ættum við Íslendingar að vera bjartsýn á framtíðina. Reyndar verður þarna að fylgja sögunni þó ég tali um að neikvæðni og tortryggni séu áberandi í umræðu hér á landi, þá er þó stór hluti þjóðarinnar ekki á þeim stað. Þótt auðvitað hafi þetta smátt og smátt áhrif. Við sjáum að mjög stór hluti Íslendinga vill fara að líta fram á við og er orðinn þreyttur á niðurrifstalinu,“ segir forsætisráðherra í áðurnefndu viðtali við Eyjuna.