Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist ekki hafa átt nokkra einustu aðkomu að eigendaskiptum á DV og segist ekkert vita um aðdraganda og gang þeirra mála, annað en það sem fram hefur komið í fjölmiðlum. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem hann setti inn á Facebook í gær þar sem hann fjallar um tilraun til fjárkúgunar gagnvart sér og fjölskyldu sinni.
Jóhanna María Sigmundsdóttir flutti frábæra ræðu á Alþingi í gær þar sem hún benti meðal annars á hversu óheillavænlegt ...Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on Saturday, June 6, 2015
Vísir greindi frá því í liðinni viku að upplýsingarnar sem systurnar Malín Brand og Hlín Einarsdóttir hótuðu að gera opinberar, borgaði forsætisráðherra þeim ekki nokkrar milljónir króna, hefðu snúist um fjárhagsleg tengsl Sigmundar Davíðs og Björns Inga Hrafnssonar fjölmiðlamanns. Upphaflega var sagt að hin meintu tengsl snertu kaup Björns Inga á DV í fyrrahaust en síðar í vikunni kom fram að upplýsingarnar sem systurnar töldu að myndu koma Sigmundi Davíð illa ef þær yrðu gerðar opinberar hafi snúist um að forsætisráðherrann eða aðilar tengdir honum hafi haft aðkomu að því að Pressan ehf. hafi fengið lánafyrirgreiðslu hjá MP banka. Björn Ingi er aðaleigandi Pressunnar.
Arnar Ægisson, framkvæmdastjóri Pressunnar, staðfesti við Vísi í vikunni að skuldir Pressunnar hefðu hækkað um rúmlega 60 milljón króna á árinu 2013. Þar sagði hann að líklega sé um að ræða yfirfærslu á yfirdrætti sem var í eignarhaldsfélaginu Vefpressunni ehf. Hann staðfesti einnig að yfirdrátturinn sé hjá MP banka. Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, er giftur systur forsætisráðherra. MP banki sagði í yfirlýsingu í síðustu viku að bankinn geti ekki geta tjáð sig efnislega um hvort nafngreindir einstaklingar eða fyrirtæki eru, eða eru ekki, í viðskiptum við bankann. Bankinn geti ekki rofið trúnað um viðskiptavini eða einstök viðskipti en fullyrðir að vinnulag bankans er í öllum tilvikum í fullu samræmi við þau lög sem gilda um starfsemi fjármálafyrirtækja.
Sigmundur Davíð segir í stöðuuppfærslu sinni að hann og aðrir hafi svarað málinu afdráttarlaust. Samt þyki þingmönnum stjórnarandstöðunnar "sæmandi að taka undir textann í hótunarbréfinu og dylgja þannig um leið um venslafólk mitt sem hafði þó liðið nóg fyrir stjórnmálaþátttöku mína."
Hann svarar því hins vegar ekki í stöðuuppfærslunni hvort hann hafi beitt sér fyrir fjárhagslegri fyrirgreiðslu fyrir Björn Inga Hrafnsson heldur einungis að hann hafi ekki komið að eigendaskiptum á DV.
Segir stjórnarandstöðu nýta sér hótanir í pólitískum tilgangi
Sigmundur Davíð er harðorður í garð stjórnarandstæðinga í stöðuuppfærslunni og segist ekki hafa trúað því að þeir " myndu leggjast svo lágt að reyna að nýta sér hótanir í garð ættingja annars stjórnmálamanns í pólitískum tilgangi, eins og nú hefur gerst." Þar á hann við ummæli sem Birgitta Jónsdóttir, formaður Pírata, og Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, hafa látið falla um málið. Birgitta sagði í vikunni að hún myndi krefjast svara um meint tengsl forsætisráðherra við fjölmiðla og Róbert sagði í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í gær að það beri að skoða hagsmunatengsl milli Sigmundar Davíðs og Björns Inga.
Undir þau orð tók Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sem var líka gestur þáttarins. Hún sagði að það skipti engu máli hvaða ráðherra ætti í hlut, það gengi ekki að ráðherrar á Íslandi ættu í fjölmiðlum. "Það er grundvallaratriði sem ekki samræmast á nokkurn hátt. Þar eru svo augljós hagsmunatengsl ef slíkt væri upp á borðinu. Báðir [Sigmundur Davíð og Björn Ingi] hafa þeir staðfastlega neitað og þar til annað kemur í ljós hlýtur það að vera hið eina rétta. Ég get fallist á að þegar svona athugasemdir koma fram þá ber að skoða og þá ítreka ég að mér er alveg sama hvaða ráðherra eða þingmaður ætti í hlut. Því við erum undir það seld að fjölmiðlar bæði fjalli um okkur persónulega og prívat og svo fjall þeir um störf okkar sem slík og það væri ansi langt gengið ef við ættum svo hagsmuna að gæta í fjölmiðla og gætum þannig tryggt að hann talaði illa um andstæðinginn og vel um okkur.“