"Það er mikilvægt að kunna að takast á við velgengni jafnt sem mótlæti. Við skulum halda áfram á leið aukins kaupmáttar með sameiginlegu átaki því það kemur heimilum og fyrirtækjum best. Félagsleg velferð og öflugt atvinnulíf haldast í hendur. Kveðum verðbólgudrauginn niður og stöndum saman að því að auka kaupmátt enn meira." Þetta er meðal þess sem fram kemur í svargrein Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra við grein Sigurðar Bessasonar, formanns Eflingar, sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Fyrirsögn greinarinnar er "Að takast á við velgengni".
Hver eiga laun þeirra lægst launuðustu að vera?
Sigurður ritaði forsætisráðherra opið bréf í Morgunblaðinu í gær þar sem hann sagði það hafa komið á óvart þegar Sigmundur Davíð hafnaði því á nýafstöðnu Viðskiptaþingi að þeir samningar sem ríkið hefur gert við tekjuhærri hópa, lækna og kennara, geti verið viðmið fyrir kröfugerð annarra. Sigurður spurði hvaða launatölu forsætisráðherrann hefði þá í huga fyrir lægst launaðasta fólk landsins, meðal annars skjólstæðinga sína? "Þá væri eðlilegt að fá mat ráðherra á því hvort það sé rangt að tekjur lækna hækki á bilinu 200 til 400 þúsundir króna í kjölfar samninganna," sagði Sigurður ennfremur.
Í grein sinni í dag segir Sigmundur Davíð að því hafi verið haldið fram að kjarasamningar ríkisins hafi raskað jafnvægi á vinnumarkaði og hækkanir á launum ríkisstarfsmanna hafi verið úr takti við aðra launaþróun. Það segir hann að sé rangt, enda hafi "ríkið samið við tæp 90% starfsmanna sinna með líkum hætti og almenni vinnumarkaðurinn hafði áður gert. Samningar við lækna og framhaldsskólakennara, sem samtals eru um 10% starfsmanna ríkisins og 1,5% af vinnumarkaði í heild, skera sig þó úr. Í þeim samningum voru gerðar verulegar breytingar á vinnufyrirkomulagi og launauppbyggingu stéttanna. Samningarnir eru einnig til mun lengri tíma, eða tæpra þriggja ára. Þeir geta því ekki gefið fordæmi fyrir þá samninga sem framundan eru á vinnumarkaði."
Kaupmáttur vegna hófsamra launahækkanna, lægri skatta og "Leiðréttingarinnar"
Sigmundur bendir síðan á að kaupmáttur launa hafi aukist um 5,3 prósent á síðastliðnu ári sem verði að teljast verulega góður árangur. Hann segir marga eiga þátt í þeim árangri og að hann skýrist meðal annars af "ábyrgum kjarasamningum á síðasta ári" þegar samið var um hófsamar launahækkanir sem skiluðu sér nær að öllu leyti í auknum kaupmætti. "Lægri skattaálögur á heimili og leiðrétting fasteignaskulda hafa svo enn frekar aukið kaupmátt heimilanna. Staðan er því betri en oftast áður og sem betur fer er eitthvað til skiptanna. Nú ríður hins vegar á að óttinn við að missa af hlutdeild í afrakstrinum verði ekki til þess að minna verði til skiptanna fyrir alla."
Forsætisráðherrann segir að Sigurður eigi að vita hversu mikilvægur stöðuleiki sé fyrir íslenska launþega. "Það er mikilvægt að kunna að takast á við velgengni jafnt sem mótlæti. Við skulum halda áfram á leið aukins kaupmáttar með sameiginlegu átaki því það kemur heimilum og fyrirtækjum best. Félagsleg velferð og öflugt atvinnulíf haldast í hendur. Kveðum verðbólgudrauginn niður og stöndum saman að því að auka kaupmátt enn meira," segir Sigmundur Davíð að lokum.