Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vonast til þess að Alþingi afgreiði tillögu hans frá því í apríl um viðbyggingu við Alþingishúsið, auk þess að byggt verði hús íslenskra fræða við Háskóla Íslands og byggt verði á Valhallarreitnum á Þingvöllum. Þetta kom fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, á þingi í dag.
Sigmundur Davíð lagði fram drög að tillögunni á ríkisstjórnarfundi í vor og þar var hún samþykkt. Tillagan snýr að því hvernig skuli minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Málið vakti mikla athygli, ekki síst vegna þess að tillagan gerði ráð fyrir því að tæplega hundrað ára hönnun Guðjóns Samúelssonar yrði notuð til grundvallar viðbyggingu við Alþingishúsið.
Katrín hvatti forsætisráðherra til þess að beita sér fyrir því að ráðist yrði í byggingu allra þessara þriggja verkefna. Hún minntist sérstaklega á hús íslenskra fræða. Hún spurði ráðherra hvar málið stæði og hvort þingið mætti eiga von á því að tekin verði ákvörðun um að ráðast í þessi mál. Hún sagðist hafa heyrt að málið hefði strandað í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, en Sigmundur svaraði engu um það.
Sigmundur sagðist „svo sannarlega“ vona að sú yrði raunin að ákvörðun yrði tekin um þessi mál. Hann sagði hins vegar, eftir að hafa verið spurður aftur um málið, að hann héldi að tafir á málinu stöfuðu af því að „menn vilji skoða hlutina vel“ og fara sem hagkvæmasta leið. Tillögur um fjárútlát sem þessi þyrfti alltaf að skoða vel, ekki síst þegar þurft hefði að spara í ríkisrekstrinum undanfarin ár.
„Vonandi komumst við að niðurstöðu hvað þetta varðar í tæka tíð til að geta haldið upp á hundrað ára afmæli fullveldisins með þessum hætti.“