Sigríður Björg Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðsins, segir í svari til Persónuverndar að hún hafi „ekkert tilefni til að álykta, eða ætla, að annarlega ástæður gæti legið að baki beiðni aðstoðarmannsins um upplýsingar“, vegna upplýsinga sem hún veitti Gísla Frey Valdórssyni, fyrrum aðstoðarmanni innanríkisráðherra, um hælisleitandann Tony Omos. Greint er frá svari Sigríðar Bjarkar á mbl.is.
Þar segir að hún hafi afhent Persónuvernd bréf þar sem hún útskýrir sína hlið á því þegar greinargerð um Tony Omos var send á Gísla Frey. Greinargerðin var send á Gísla Frey 20. nóvember 2013, eftir að upplýsingar um Omos sem aðstoðarmaðurinn fyrrverandi lak í fjölmiðla birtust opinberlega.
Í bréfinu segist Sigríður Björk hafa verið í góðri trú og enga ástæðu til að ætla annað en að Gísli Freyr hafi óskað eftir greinargerðinni í umboði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, sem sagði af sér embætti vegna leka Gísla Freys í nóvember síðastliðnum. Hún segist hafa gengið út frá því að ráðuneytið teldi greinargerðina nauðsynlega til þess að ráðherra gæti sinnt lögbundnum skyldum sínum.
Í frétt mbl.is er eftirfarandi brot úr bréfi Sigríðar Bjarkar birt:
„Forstöðumenn eða starfsmenn undirstofnana ráðuneytis hljóta auk þess almennt séð að geta gengið að því sem gefnu, a.m.k. þar til hið gagnstæða kemur í ljós, að umboð og heimildir til þess og að erindi þeirra eigi sér réttmætar og eðlilegar forsendur. Þá hljóta forstöðumenn og starfsmenn undirstofnana að gefa sér, líkt og undirrituð í greint sin, að þeir sem taka við upplýsingum fyrir hönd ráðherra og ráðuneytis virði þær reglur sem gilda um meðferð viðkvæmra upplýsinga sem þeir kalla eftir og fá starfa sinna vegna.“