Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir að það hafi aldrei hvarflað að sér að segja af sér vegna lekamálsins eða niðurstöðu Persónuverndar um að lög hafi verið brotin í samskiptum hennar við Gísla Frey Valdórsson, fyrrum aðstoðarmann Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Hún segir að úrskurður Persónuverndar snúist "í raun og veru" um hvernig yfirstofnanir og undirstofnanir eigi að eiga samskipti sín á milli. Sigríður Björk segir enn fremur að mikil fjölmiðlaumfjöllun um málið hafi komið sér á óvart og að hún hafi tekið umfjöllunina nærri sér. Þetta kemur fram í viðtali við Sigríði Björk í Morgunblaðinu í morgun.
Vert er að taka fram að Kjarninn og fleiri fjölmiðlar hafa ítrekað óskað eftir svörum frá Sigríði Björk um niðurstöðu Persónuverndar og aðra mögulega aðkomu hennar að lekamálinu. Hún hefur ekki svarað þeim fyrirspurnum.
Segir lögreglu hafa skoðað samskipti sín við Gísla Frey
Sú spurning sem helst hefur verið ósvöruð er af hverju Sigríður Björk lét ekki rannsakendur lekamálsins vita að Gísli Freyr hefði verið í samskiptum við hana þessa sömu daga og lekinn á minnisblaði um Tony Omos og fleiri átti sér stað til að óska eftir upplýsingum um sama fólk. Sigríður Björk svarar þeirri spurningu í Morgunblaðinu svona: "Því er til að svara að samskipti mín við aðstoðarmanninn fóru fram eftir að hann hafði lekið upplýsingum til fjölmiðla. Jafnframt að öll samskipti aðstoðarmanna og tölvupóstsendingar voru skoðuð af lögreglunni og allar upplýsingar um mín samskipti lágu þar fyrir."
Sigríður Björk segir að málið hafi reynt á hana og embættið en að því sé nú lokið. Hún segist ánægð og þakklát fyrir orð Ólafar Nordal innanríkisráðherra þess efnis að hún telji Sigríði Björk hafa verið í góðri trú þegar hún sendi Gísla Frey gögn. "Eg er einnig þakklát fyrir það traust sem ráðherrann sýnir mér."