Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hyggst afhenda Persónuvernd tölvupóst sem hún sendi Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þann 20. nóvember 2013, sem innihélt greinargerð um hælisleitandann Tony Omos. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Sigríður Björk sendi völdum fjölmiðlum í dag, en Kjarnanum var ekki send yfirlýsingin fyrr en hann óskaði sérstaklega eftir henni.
Þá segir Sigríður Björk að frétt Kjarnans um að umræddur tölvupóstur finnist hvorki hjá innanríkisráðuneytinu né lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum, eigi ekki við rök að styðjast.
Í yfirlýsingunni segir: „Tölvupóstur með greinargerð sem þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum sendi þáverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra 20. nóvember 2013, er vistaður á póstþjóni lögreglunnar. Tölvupósturinn verður meðal þeirra gagna sem undirrituð afhendir Persónuvernd eigi síðar en nk. föstudag, 30. janúar.“
Kjarninn stendur við fréttina frá því í dag. Þar kom jafnframt fram að Sigríður Björk hafi óskað eftir lengri frest til að afhenda umræddan tölvupóst, en frestur sem Persónuvernd gaf henni til þess átti að renna út í dag. Persónuvernd álítur tölvupóstinn sem lykilgagn við rannsókn sína á samskiptum Sigríðar Bjarkar og Gísla Freys.
Kjarninn sendi Sigríði Björk fyrirspurn þar sem hún var spurð af hverju hún hafi óskað eftir lengri frest til að skila Persónuvernd umbeðnum gögnum, og hvaða fleiri gögn hún hyggist afhenda stofnuninni eigi síðar en á föstudaginn. Í skriflegu svari Sigríðar segir: „Ástæðan fyrir frestinum var sú að ég ræddi við Þórð Sveinsson hjá Persónuvernd í morgun, til að kanna hvort hann vildi fá tölvupóstsamskiptin á útprentuðu formi eða rafrænu. Í samtalinu vöknuðu spurningar varðandi tæknilega tilhögun sem ég þarf að afla nánari upplýsinga um og því fékk ég frestinn.“