Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að hún hafi ekki gerst brotleg við lög þegar hún varð við ósk Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, um að senda honum greinargerð um málefni hælisleitandans Tony Omos. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Kjarnanum barst nú rétt í þessu.
Í fréttatilkynningunni frá Sigríði Björk segir:
Vegna úrskurðar Persónuverndar í máli nr. 2014/1779 tel ég rétt að árétta eftirfarandi:
Í niðurstaðu Persónuverndar kemur ekki fram að ég hafi gerst brotleg við lög þegar ég varð við ósk aðstoðarmanns Innanríkisráðherra um að senda honum skýrsludrög um málefni hælisleitanda þann 20. nóvember 2013. Persónuvernd kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að miðlun skýrsludraganna hafi ekki stuðst við viðhlítandi heimild þar sem hún var ekki á meðal gagna í því máli hælisleitandans sem til meðferðar var í ráðuneytinu. Það gat ég sem sendandi hvorki vitað né tryggt.
Persónuvernd segir í úrskurði sínum „að móttaka aðstoðarmannsins á skýrsludrögunum frá Lögreglunni á Suðurnesjum hafi talist liður í starfsemi ráðuneytisins og það því ábyrgðaraðili að þeirri vinnslu sem í móttöku draganna fólst“. Það var því ráðuneytisins að tryggja að rétt yrði farið með skjalið. Það var mat lögreglunnar á Suðurnesjum að lagaleg heimild væri til staðar fyrir miðlun skýrsludraganna.
Af niðurstöðu Persónuverndar verður einnig ráðið að þörf er á að yfirfara innan stjórnsýslunnar verkferla vegna krafna um upplýsingaöryggi og öryggi við miðlun persónuupplýsinga.
Í niðurstöðukafla Persónuverndar segir hins vegar:
„Framangreindan skort á skráningu hjá Lögreglunni á Suðurnesjum og innanríkisráðuneytinu telur Persónuvernd hafa farið í bága við 1. og 2. mgr. 11. gr. og 12. gr. laga nr. 77/2000 (Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga). Á það einnig við um skort á skráningu ráðuneytisins á mótttöku fyrrnefndrar framburðarskýrslu frá Útlendingastofnun.
Loks liggur fyrir að bæði við sendingu Lögreglunnar á Suðurnesjum á fyrrnefndum skýrsludrögum og sendingu Útlendingastofnunar á áðurnefndri framburðarskýrslu voru ekki gerðar fullnægjandi öryggisráðstafanir í ljósi framangreindra ákvæða.“
Þá segir í úrskurðarorði Persónuverndar:
„Skortur á skráningu um miðlun draganna í málaskrá lögreglunnar á Suðurnesjum, sem og um öflun þeirra í málaskrá innanríkisráðuneytisins, fór í bága við kröfum um upplýsingaöryggi. Hið sama gildir um skort á skráningu um mótttöku ráðuneytisins hinn 20. nóvember 2013 á framburðarskýrslu Tony Omos frá Útlendingastofnun.
Ekki var gætt viðunandi öryggis við miðlun fyrrnefndra skýrsludraga til ráðuneytisins frá Lögreglunni á Suðurnesjum og fyrrnefndrar framburðarskýrslu frá Útlendingastofnun til ráðuneytisins.“