Sigríður Ingibjörg Ingadóttir ætlar að halda áfram í stjórnmálum, samkvæmt yfirlýsingu sem hún sendi fjölmiðlum í morgun. Hún hafði velt því fyrir sér um helgina að hætta í stjórnmálum vegna gagnrýni sem framboð hennar til formanns Samfylkingarinnar fékk.
„Sú heift sem birst hefur vegna framboðs míns er í algjörri andstöðu við þann kraft sem kom fram á landsfundi. Ég kýs að túlka það sem svo að ásakanir áhrifafólks í Samfylkingunni vegna lýðræðislegs framboðs míns hafi verið settar fram í hita leiksins,“ segir í yfirlýsingunni.
Hún segir að framboðið hafi verið svar við kröfum um breyttar og skýrari áherslur flokksins. „Sitjandi formaður hafði betur og ég er sátt við þá niðurstöðu, styð Árna Pál og tel það styrkja flokkinn að undiralda fái að komast upp á yfirborðið og umbreytast í kraft til að skerpa áherslur jafnaðarstefnunnar og endurmeta stefnumál.“
Sighvatur Björgvinsson fyrrverandi ráðherra hefur bæst í hóp þeirra sem gagnrýnt hafa Sigríði Ingibjörgu fyrir framboð hennar. Hann skrifar grein í Morgunblaðið þar sem kemur fram að engin fordæmi séu fyrir því að til átaka sé efnt um forystu flokks án forsögu. Þótt leitað hefði verið með logandi ljósi „hefði ekkert það getað fundist sem eyðilagt gæti jafn mikið fyrir hreyfingu íslenskra jafnaðarmanna og það, sem þarna fannst,“
Í gær skrifaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum formaður flokksins, um málið á Facebook síðu sína og sagði framboðið aldrei hafa getað farið öðruvísi en með löskuðum formanni eða formanni með mjög óljóst umboð til starfa. Þá tjáði Valgerður Bjarnadóttir þingmaður sig um málið á RÚV og kallaði framboðið tilraun til yfirtöku.