Starf Sigrúnar Davíðsdóttur, fréttamanns og pistlahöfundar hjá RÚV sem staðsett er í London, verður minnkað úr heilu starfi niður í hálft um komandi áramót. Þetta staðfestir Sigrún við Kjarnann. Fréttaskýringar og pistlar Sigrúnar hafa um árabil verið fluttar í Speglinum, fréttaskýringarþætti í útvarpi RÚV. Sigrún hefur fjallað mest allra fréttamanna RÚV um efnahagsmál og mál sem tengjast efnahagshruninu sem átti sér stað 2008. Umfjallanir hennar hafa bæði verið um innlend mál sem erlend. Hún var meðal annars valin fréttamaður ársins hjá RÚV árið 2009.
Sigrún Davíðsdóttir.
Kjarninn greindi frá því í gær að framundan sé blóðugasti niðurskurður í sögu RÚV vegna fyrirhugaðrar lækkunar á útvarpsgjaldinu. Samkvæmt heimildum Kjarnans gerir rekstraráætlun RÚV ráð fyrir að fyrirhuguð lækkun útvarpsgjaldsins muni leiða til nauðsynlegs niðurskurðar í rekstri félagsins fyrir hátt í 700 milljónir króna á ári. Rekstraráætlunin hefur verið yfirfarin af óháðum aðilum, að því er heimildir Kjarnans herma.
Ekki hætt, en mikil breyting
Sigrún segist hafa fundið fyrir því á undanförnum árum að norrænir fréttamenn sem starfi erlendis hafi verið skornir mikið niður. Hún sé ekki hætt en breytingin muni skerða svigrúm hennar til að sinna starfi sínu. „ Mér var í haust boðið upp á það sem samsvarar hálfu starfi, það kemur til framkvæmda um áramótin svo ég er ekki alveg hætt. Hins vegar breytir þetta miklu fyrir mig og gefur mér ekki sama svigrúm og áður til sinna því sem ég tel skipta máli. Það verður bara að koma í ljós hvað verður.
Það er ögn dapurlegt að um leið og við sem vinnum erlendis finnum bæði fyrir meiri almennum áhuga heima fyrir á umfjöllun um erlend málefni og eins áhuga á að horfa á heimalandið utan frá í víðara samhengi, ekki aðeins undir pottloki, þá skuli einmitt verið að loka þessum sjónarhóli
Á fréttastofunni hefur niðurskurðurinn í þessari umferð bitnað á okkur sem störfum erlendis. Ég hef séð það sama gerast undanfarin ár meðal norrænna starfsbræðra hér í London, þeir eru orðnir fáir hér og erlent efni þá unnið heima í sparnaðarskyni. Það er ögn dapurlegt að um leið og við sem vinnum erlendis finnum bæði fyrir meiri almennum áhuga heima fyrir á umfjöllun um erlend málefni og eins áhuga á að horfa á heimalandið utan frá í víðara samhengi, ekki aðeins undir pottloki, þá skuli einmitt verið að loka þessum sjónarhóli.“
Sigrúnar segist telja að glíma RÚV við stjórnvöld sé mikið áhyggjuefni, sérstaklega vegna þess að íslenskir einkamiðlar séu annað hvort undirfjármagnaðir eða tengdir miklum sérhagsmunum. „Í íslensku fjölmiðlaumhverfi eru margir miðlar ýmist illa fjármagnaðir eða nátengdir sérhagsmunum sem bitnar bæði á fréttaefni og öðru efni. Þess vegna er glíma Ríkisútvarpsins við stjórnvöld um hlutverk og fé kannski enn áhyggjusamlegri einmitt á Íslandi þó sama sé að gerast hjá ríkisfjölmiðlum í öðrum löndum, til dæmis í Danmörku og Bretlandi. Allt er þetta hluti af samfélagsþróun sem sumir fagna og aðrir óttast.“
Mikill niðurskurður framundan
Stjórnendur RÚV fóru á fund fjárlaganefndar á föstudag eftir að nefndarmenn höfðu óskað eftir upplýsingum um af hvaða stærðargráðu nauðsynlegur niðurskurður hjá fyrirtækinu yrði að óbreyttu.
Samkvæmt heimildum Kjarnans nefndu stjórnendur RÚV að niðurskurðurinn væri svipaður að umfangi og tvær Rás 1 og umtalsvert til vibótar, öll innlend dagskrárgerð í sjónvarpi eða allt fréttasvið RÚV, en það sinnir fréttum í öllum miðlum, veðri, fréttaskýringarþáttum á borð við Kastljós og starfsemi á landsbyggðinni.