Þingflokkur Framsóknarflokksins samþykkti í dag tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins og forsætisráðherra, um að Sigrún Magnúsdóttir taki við embætti umhverfis- og auðlindarráðherra. Þetta var staðfest í fréttatilkynningu sem barst frá aðstoðarmanni forsætisráherra rétt í þessu. Þar er haft eftir Sigrúnu að umhverfis- og auðlindarmál séu henni „hugleikin og ég hlakka til að takast á við þau verkefni sem bíða. Í mínum huga eru umhverfismálin mikilvæg fyrir framtíð lands og þjóðar, sér í lagi er varðar gróðurríki landsins og sjálfbæra nýtingu lífríkis hafs.“
Sigmundur Davíð segir Sigrúnu vera reynslumiklan, farsælan og heilsteyptan stjórmálamann sem njóti trausts. „Sjónarmið og reynsla hennar vega þungt. Það verður mikill fengur í því að fá Sigrúnu Magnúsdóttur til liðs við ríkisstjórnina."
Sigrún er þingflokksformaður Framsóknarflokksins Hún er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður og var kjörin ný á þing í síðustu kosningum. Hún er auk þess elsti þingmaður þjóðarinnar, en Sigrún varð sjötug síðastliðið sumar.
Hún sat í borgarstjórn Reykjavíkur í 16 ár, m.a. sem formaður borgarráðs í 6 ár og formaður borgarstjórnarhóps Reykjavíkurlistans frá 1994 til 2002. Hún hefur setið í stjórnum margra fyrirtækja og stofnana borgarinnar og leitt mikilvæg verkefni, t.d. á sviði mennta- og fræðslumála.