Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum á búi sínu. Frá þessu greinir DV í dag en í samtali við blaðið vildi Sigurður ekki tjá sig frekar um málið.
Sigurður var fundinn sekur í Al Thani-málinu svokallaða. Hann afplánar nú fjögurra ára dóm á Kvíabryggju.
Í frétt DV eru rifjuð upp tvö dómsmál er varða persónuleg fjármál Sigurðar og geta skýrt hvers vegna hann óskar eftir því hjá Héraðsdómi Reykjavíkur að bú hans verði tekið til persónulegra gjaldþrotaskipta. Árið 2012 var Sigurður dæmdur til að greiða tæplega 500 milljónir króna auk dráttarvaxta vegna persónulegrar ábyrgðar á lánu sem hann fékk hjá Kaupþingi til að kaupa hlutabréf í bankanum. Sigurður hafði fengið 5,5 milljarða króna lán til kaupanna og krafðist slitastjórnin tíu prósenta endurgreiðslu, eða um 550 milljóna króna. Áður hafði slitastjórnin fellt úr gildi fyrri ákvörðun stjórnar Kaupþings um að fella niður persónulegar ábyrgðir lykilstarfsmanna bankans á lánum til þeirra.
Þá greindi Fréttablaðið frá því í júní síðastliðnum að Sigurður stefndi íslenska ríkinu vegna skattlagningar á kauprétti hans hjá Kaupþingi fyrir hrun. Sigurður telur kaupréttina skattskylda í Bretlandi þar sem hann bjó en það féllust íslensk skattayfirvöld ekki á og taldi skattstofn kaupréttanna nema samtals um tveimur milljörðum króna. Tapi Sigurður málinu er honum gert að greiða um 700 milljónir króna í tekjuskatt.