Sigurður Einarsson, fyrrum starfandi stjórnarformaður Kaupþings, hóf afplánun á fjögurra ára fangelsisdómi sem hann hlaut í Al Thani-málinu svokallaða í Hegningarhúsinu í gær. Frá þessu er greint á vef Vísis.
Þar með eru þrír af þeim fjórum sem hlutu þunga fangelsisdóma í málinu komnir í afplánun.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, hlaut fimm og hálfs árs dóm í málinu. Hann hóf afplánun snemma í mars og er vistaður í opna fangelsinu á Kvíabryggja. Þar afplánar einnig Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip og fyrrverandi hluthafi í Kaupþingi, sem hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm fyrir aðild sína að Al Thani-málinu.
Allir mennirnir þrír óskuðu eftir því við fangelsismálayfirvöld að hefja afplánun áður en þeir voru boðaðir til hennar. Fjórði maðurinn sem hlaut dóm, Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, hefur enn ekki hafið afplánun. Hann hlaut fjögurra og hálfs árs dóm.
Aðalmeðferð framundan – alvarlegar sakir
Framundan er aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli sem beinist að Kaupþingsfólki, samtals níu starfsmönnum. Hún fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. apríl til 22. maí. Ákærðu er gefið að sök að hafa ýmist komið í veg fyrir eða hægt á lækkun á verði hlutabréfa í Kaupþingi, frá hausti 2007 og fram að falli bankans haustið 2008, og aukið seljanleika þeirra með „kerfisbundnum“ og „stórfelldum“ kaupum, eins og segir í ákæru, í krafti fjárhagslegs styrks bankans. Hreiðar Már, Sigurður og Magnús eru allir ákærðir í málinu.
Hreiðar, Magnús og Sigurður eru svo einnig ákærðir í CLN-málinu en þar er þeim gefið að sök að hafa misnotað stöðu sína sem stjórnendur bankans í lánveitingum til nokkurra félaga sem voru í eigu viðskiptavina bankans. Lánin voru svo notuð til að kaupa skuldatryggingar á Kaupþing banka, eða svokölluð Credit Linked Notes, með það að markmiði að lækka álagið og freista þess að opna fyrir fjárveitingar til bankans á markaði.
Þriðja málið sem er fyrir dómstólum, og beinist að Kaupþingsstjórnendum, er Marple-málið svonefnda, en Hreiðar Már og Magnús eru ákærðir í því ásamt Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra bankans, og Skúla Þorvaldssyni, fjárfesti og fyrrverandi stórs hluthafa Kaupþings. Ákært er fyrir fjárdrátt, þegar færðir voru átta milljarðar króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple, sem var í eigu Skúla Þorvaldssonar, án þess að heimild væri fyrir því.
Hámark níu ára fangelsi
Heimild er í hegningarlögum að auka við refsingu sem þegar hefur komið fram með dómi, og bæta við hana allt að helmingi, ef menn hafa ítrekað verið dæmdir fyrir lögbrot. Níu ára fangelsi er að það mesta sem Kaupþingsmenn geta fengið, þegar allt er tekið, og ef sakfellt verður í öðrum málum. Í ljósi fordæmis úr Al Thani málinu, gæti sú staða komið upp að refsiramminn yrði fullnýttur áður en málin yrðu til lykta leidd í dómskerfinu sem að þeim beinast. Þá kæmi til mats á því, hjá embætti sérstaks saksóknara, hvort það væri þess virði að fara fram með málin af fullum þunga í dómskerfinu og leiða þau til lykta.