Hæstaréttarlögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson hefur keypt tíu prósent hlut í fjölmiðlafyrirtækinu Pressunni. Hann kaupir nýtt hlutafé sem var gefið út í tilefni af kaupum Pressunnar á tæplega 70 prósent hlut í DV ehf. Aðrir eigendur Pressunnar eru Björn Ingi Hrafnsson, Arnar Ægisson og AB11 ehf. Frá þessu var gengið í dag en kaupverðið hefur ekki verið gefið upp.
Sigurður G. Guðjónsson er ekki ókunnur fjölmiðlarekstri. Hann er fyrrum forstjóri Norðurljósa, fyrirrennara 365, og var á meðal stofnenda Blaðsins, sem síðar var keypt af Árvakri og var lagt niður í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.
Þetta kemur fram á vefnum pressan.is.
Þar er eftirfarandi haft eftir Sigurði: „Mér fannst þetta spennandi tækifæri og ákvað að vera með,“ segir Sigurður. „Ég þekki fjölmiðlarekstur á Íslandi mjög vel, var einn stofnenda Blaðsins á sínum tíma og tel tækifæri felast í því að setja saman mismunandi fjölmiðla, nýta möguleika í samlegð og halda um leið sérkennum hvers um sig.“
Pressan er stræsti hluthafi í DV ehf., sem á og rekur DV og dv.is. Félagið á auk þess Vefpressuna sem rekur vefmiðlana Pressuna, Eyjuna og Bleikt.
Sigurður G. kom að fyrri átökum
Stjórnarformaður og útgefandi Pressunnar er Björn Ingi Hrafnsson. Félagið keypti tæplega 70 prósent hlut í DV ehf. fyrir skemmstu. Stór hluti kaupverðsins var fjármagnaður með láni frá seljendum hlutarins. Sá hópur er leiddur af Þorsteini Guðnasyni og tók yfir DV í haust eftir harðvítug átök við Reyni Traustason, fyrrum ritstjóra DV og minnihlutaeiganda, og hóp sem honum tengist. Átökin enduðu með að Þorsteinn og viðskiptafélagar hans tóku yfir DV og sögðu Reyni upp störfum. Á meðal þeirra sem komu að þeim átökum fyrir hönd Þorsteins var Sigurður G. Guðjónsson, sem nú er orðinn einn eigenda Pressunnar.
Sigurður hefur auk þess ítrekað gætt hagsmuna aðila sem hafa stefnt DV fyrir fréttaflutning.
Í frétt Pressunnar um hlutafjárkaup Sigurðar kemur einnig fram að fleiri hluthafar muni bætast við hluthafahóp fjölmiðlafyrirtækisins á næstunni.