Sigurður Magnús Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs hjá Wow Air. Hann kemur til Wow frá flugfélaginu Atlanta, þar sem hann hefur undanfarið verið flugrekstrarstjóri.
Sigurður tekur við starfinu af Birgi Jónssyni, sem var ráðinn til félagsins í nóvember í fyrra sem aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs. Þá hafði hann starfað hjá fyrirtækinu í tvo mánuði að ýmsum verkefnum.
Í tilkynningu frá Wow núna kemur fram að ráðning hans hafi verið til eins árs og hann hafi komið að margvíslegum stefnumótunar- og skipulagsmálum í hröðum vexti. Honum eru þökkuð vel unnin störf í tilkynningu frá Wow en þar er einnig haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra Wow, að Sigurður Magnús og hans mikla flugrekstrarreynsla muni nýtast fyrirtækinu á „fyrirsjáanlegu vaxtarskeiði.“
Fyrr í ágúst var tilkynnt um að Stefán Sigurðsson hefði verið ráðinn nýr fjármálastjóri hjá Wow. Hann kom til Wow frá Advania, þar sem hann var fjármálastjóri í tæpt ár.