Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, og Yngvi Örn Kristinsson, fyrrum forstöðumaður verðbréfasviðs bankans, voru í héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdir til að greiða slitastjórn gamla Landsbankans 238 milljónir króna. Steinþór Gunnarsson, fyrrum forstöðumaður verðbréfasviðs bankans, var sýknaður af kröfum slitastjórnarinnar í málinu.
Mönnunum þremur var stefnt vegna tjóns sem slitastjórn gamla Landsbankans taldi sig hafa orðið fyrir vegna kaupa bankans á bréfum í sjálfum sér, Eimskipum og Straumi-Burðarás á tímabilinu 7. nóvember 2007 til 25. júlí 2008. Slitastjórnin krafðist skaðabóta vegna þessarra viðskipta, en stærstu hluthafar Eimskips og Straums- Burðarás á þessum tíma voru feðgarnir Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson, sem voru líka stærstu eigendur Landsbankans.
Slitastjórn Landsbankans vildi meina að saknæmi Sigurjóns í málinu hafi falist í því að hann hafi "af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gefið samþykki fyrir umræddum kaupum þótt hann hafi vitað eða mátt vita að ekki væru uppfyllt skilyrði áhættureglna bankans fyrir kaupunum og reglunnar um að bankinn mætti ekki eiga nema 10% eigin hluti. Þá hefur stefndi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að hlutast ekki til um að hlutabréfin yrðu seld þegar fyrir lá að kaupin höfðu verið gerð án heimildar og í bága við reglur bankans og lög."
Saknæmi Yngva Arnar hafi falist í að "hafa af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gefið samþykki fyrir umræddum kaupum þótt hann hafi vitað eða mátt vita að ekki væru uppfyllt skilyrði áhættureglna bankans fyrir kaupunum og reglunnar um að bankinn mætti ekki eiga nema 10% eigin hluti. Þá hefur stefndi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að hlutast ekki til um að hlutabréfin yrðu seld þegar fyrir lá að kaupin höfðu verið gerð án heimildar og í bága við reglur bankans og lög."
Þá vildi slitastjórnin meina að Steinþór hefði einnig sýnt af sér saknæma háttsemi, einkum með því að hann hafi af ásetningi eða stórfelldu gáleysi "keypt inn á miðlunarbók hlutabréfa II og/eða gefið fyrirmæli um kaup á hlutabréfunum án þess að uppfyllt væru skilyrði þeirra heimilda sem hann hafði til kaupanna samkvæmt áhættureglum bankans. Jafnframt er hann sakaður um kaup á eigin hlutum í bankanum þótt hann hafi haft upplýsingar um að bankinn ætti þegar hluti yfir þeim 10% mörkum sem reglur mæltu fyrir um. Loks fyrir að hlutast ekki til um að hlutabréfin yrðu seld þótt bankinn hafi haldið á þeim í meira en einn mánuð."
Í dómnum er tiltekið að það tjón sem slitabú gamla Landsbankans hafi orðið fyrir vegna viðskiptanna sé að "enginn hluti af kaupverði umræddra hlutabréfa hafi fengist endurheimtur og byggir stefnandi á því að hlutabréfin hafi orðið verðlaus þann 7. október 2008. Leggja verði til grundvallar í máli þessu að ef umrædd hlutabréf hefðu ekki verið keypt og vistuð á miðlunarbók hlutabréfa II þá hefði andvirði þeirra á þeim tíma sem þau voru keypt inn á bókina ekki glatast. Heildarupphæð umræddra hlutabréfakaupa hafi numið alls 1.208.244.352 krónum en samkvæmt því sé ljóst að tjón stefnanda nemi þeirri fjárhæð."
Steinþór var, líkt og áður sagði, sýknaður af kröfum slitastjórnar gamla Landsbankans en Sigurjón og Yngi Örn þurfa að greiða slitastjórninni tæplega 238 milljónir króna auk vaxta.
Héraðsdómur fellst ekki á allar málsástæður stefnanda og því er mönnunum ekki gert að greiða allt það tjón sem slitastjórnin fór fram á.