Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, og Sigríður Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, voru rétt í þessu sýknuð í héraðsdómi Reykjavík. RÚV greinir frá þessu. Þau voru ákærð fyrir umboðssvik upp á 13,6 milljarða króna. Ætluð brot þeirra, sem þau hafa nú verið sýknuð af, varða allt að sex ára fangelsi.
Sjálfskuldarábyrgðir án nokkurra trygginga
Samkvæmt ákærunni samþykktu og undirrituðu Sigurjón og Elín sjálfskuldaábyrgðir Landsbankans á lánasamninga Kaupþings við tvö félög án utanaðkomandi tryggina, þann 4. júlí árið 2006, fyrir hönd Landsbankans. Félögin sem um ræðir voru Empennage Inc. og Zimham Corp., sem bæði voru skráð á Panama. Sjálfskuldaábyrgðirnar hljóðuðu samtals upp á 6,8 milljarða króna, en lán Kaupþings til félaganna voru tryggð með veði í Landsbankanum að nafnverði fyrir samtals 332 milljónir króna.
Þá var þeim Sigurjóni og Elínu sömuleiðis gefið að sök að hafa samþykkt og undirritað sjálfskuldarábyrgð Landsbankans á lánasamning Kaupþings, dagsettan 29. júní 2007, við félagið Empennage Inc, fyrir 6,8 milljarða króna, en umrædd ábyrgð var veitt án utanaðkomandi trygginga.
Ætluð brot varða allt að sex ára fangelsi
Fyrrgreinar sjálfskuldaábyrgðir voru veittar vegna lánveitinga Kaupþings til kaupa félaganna, Empannage og Zimham, á hlutabréfum í Landsbankanum. Kaupþing lýsti rúmlega tíu milljarða króna kröfu í þrotabú Landsbankans í október 2009 á grundvelli sjálskuldaábyrgða Landsbankans. Slitastjórn Landsbankans hafnaði kröfunni.