Hluthafar Síldarvinnslunnar í Neskaupstað ákváðu það á aðalfundi sínum í dag að fresta ákvörðun um arðgreiðslur vegna óvissunnar í tengslum við viðskiptabann Rússa. Aðalfundurinn var haldinn á Hótel Egilsbúð í dag.
RÚV greinir frá þessu og hefur eftir Þorsteini Mál Baldvinssyni, stjórnarformanni, að ekki sé útilokað að arður verði greiddur út síðar, enda sé eðlilegt að fyrirtæki eins og Síldarvinnslan greiði arð. Ekki verði ráðist í uppsagnir vegna innflutningsbanns Rússa en vinnan gæti minnkað og starfsfólk geri sér grein fyrir því.
Góð afkoma og tveir milljarðar í arð í fyrra
Afkoma Síldarvinnslunnar hefur verið góð undanfarin ár. Þar vega þungt hagstæðar aðstæður í uppsjávarveiðum og vinnslu. Það er ekki síst tilkoma makríls í lögsögunni sem hefur haft verulega jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins. Hagnaður fyrirtækisins árið 2013 nam 5,6 milljörðum króna og sjö milljörðum króna árið 2012.
Á aðalfundi í fyrra var ákveðið að arðgreiðslur til hluthafa vegna ársins 2013 yrðu tveir milljarðar króna.
Síldarvinnslan hefur einnig styrkt sig í bolfiski með kaupum á kvóta á síðustu árum. Þar ber hæst kaup á Bergi-Huginn í Vestmannaeyjum. Þá keypti Síldarvinnslan hluta af kvóta Stálskips í Hafnarfirði. Auk þess er félag í eigu Síldarvinnslunnar, SVN eignafélag ehf. stór hluthafi í tryggingarfélaginu Sjóvá og hefur sú fjárfesting skilað góðri ávöxtun nú þegar. Síðastliðið haust keypti Síldarvinnslan svo útgerðarfyrirtækið Gullberg á Seyðisfirði.
Með þeim kaupum var Síldarvinnslan orðin risi í íslenskum sjávarútvegi með umtalsverðan kvóta í flestum helstu fiskitegundum við Ísland. Helstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji (45% hlutur), Gjögur (34%) og SÚN í Neskaupstað (11%). Þess má geta að stór hluthafi í Gjögur er Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group og formaður stjórnar Samtaka atvinnulífsins.
Framkvæmdastjórinn gagnrýnt þátttöku Íslands
Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, hefur gagnrýnt þátttöku Íslands í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi. Áður en Rússar víkkuðu út sitt innflutningsbann vegna þvingananna skrifaði Gunnþór um málið á heimasíðu Síldarvinnslunnar, þar sem hann sagði þátttökuna vera vanhugsaða og gríðarlegir hagsmunir þjóðarbúsins væru þar lagðir að veði. „Sé raunverulegur vilji til að aðstoða íslensk fyrirtæki og gæta að hagsmunum þjóðarinnar getur ráðherra lýst yfir hlutleysi stjórnvalda og reynt að vinda ofan af stuðningi Íslands í aðgerðum gegn Rússum. Á þann hátt er sjálfstæði Íslendinga í utanríkismálum undirstrikað,“ sagði Gunnþór.