Siminn, stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins, hagnaðist um 1,3 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2015. Tekjur félagsins drógust hins vegar saman um 4,4 prósent á tímabilinu miðað við sama tímabil í fyrra. Eigið fé Símans er nú 31,2 milljarðar króna og hefur aukist um 1,3 milljarða króna frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir eru 24,8 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 50,7 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar vegna hálfsársuppgjörs Símans.
Orri Hauksson, forstjóri Símans, tilkynnti það á Kauphallardögum Arion banka 8. apríl síðastliðinn að Síminn yrði skráður á hlutabréfamarkað í haust. Arion banki og Arctica Finance hafa unnið að undirbúningi hlutafjárútboðs vegna skráningarinnar. Í tilkynningunni er haft eftir Orra að vinna við undirbúning skráningar gangi vel og að gert sé ráð fyrir því að Síminn verði skráður á markað á fjórða ársfjórðungi.
Síminn á og rekur fyrirtæki sem starfa einkum á sviði fjarskipta og upplýsingatækni. Innan samstæðunnar eru eftirtalin fyrirtæki: Síminn, Míla, Sensa, Staki, On-Waves Radiomiðun, Talenta og Sensa DK í Danmörku.
Sala dróst saman
Alls seldi Síminn vörur og þjónustu fyrir 14,6 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins, sem er um 700 milljónum krónum minna en hann gerði á sama tímabili í fyrra. Ástæðan er fyrst og fremst sú að tekjur Símans í Danmörku voru að hluta til inni í tölum fyrra árs en það fyrirtæki var selt á árinu 2014. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var um fjórir milljarðar króna, sem er mjög svipað og á fyrri hluta síðasta árs.
Alls nema heildareignir Símans 61,5 milljörðum króna og vaxtaberandi skuldir hans eru 24,8 milljarðar króna, eða um 1,2 milljörðum krónum lægri en þær voru um mitt ár 2014. Eigið fé e, líkt og áður sagði, 31,2 milljarðar króna.
Keyptu fimm prósent í Símanum
Nokkrir stjórnendur Símans og hópur annarra fjárfesta, meðal annars erlendra, keyptu fyrir helgi fimm prósent hlut í félaginu á 1.330 milljónir króna. Miðað við það verð er markaðsvirði Símans 26,6 milljarðar króna. Hópinn leiðir hollenski fjárfestirinn Bertrand Kan, sem er fyrrum yfirmaður hjá Morgan Stanley. Kan þekkir vel til Símans, en hann stýrði meðal annars söluferli hans árið 2005, þegar Síminn var einkavæddur, fyrir hönd Morgan Stanley.
Á meðal annarra sem keyptu er Orri Hauksson, forstjóri Símans, sem keypti samtals 0,4 prósent hlut fyrir um 106 milljónir króna.
Þá vekur athygli að fyrrum forstjóri eins helsta samkeppnisaðila Símans, Vodafone á Íslandi, er á meðal þeirra fjárfesta sem tilheyra hópnum. Sá heitir Ómar Svavarsson og stýrði Vodafone á Íslandi í fimm ár, eða þar til í maí 2014 þegar honum var sagt upp störfum. Ómar hafði þá starfað hjá Vodafone frá árinu 2005.
Eftir söluna á Arion banki enn 33 prósent hlut í Símanum, sem stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins. Stefnt er að því að skrá hlutabréf Símans í Kauphöll Íslands í haust og í aðdraganda þess áformar Arion banki að minnka enn frekar hlut sinn. Aðrir stórir eigendur Símans eru íslenskir lífeyrissjóðir, þeirra stærstur er Lífeyrissjóður verslunarmanna 13,23 prósent hlut.
Menn sem störfuðu hjá Morgan Stanley og Goldman Sachs
Fjárfestahópurinn samanstendur af fjárfestum frá fimm löndum ásamt nokkrum af stjórnendum Símasamstæðunnar. Á meðal þeirra er Orri Hauksson, forstjóri Símans. Aðrir úr stjórnendahópnum sem kaupa eru þeir sem sitja framkvæmdastjórnarfundi Símans (framkvæmdastjórar Símans eru Birna Ósk Einarsdóttir, Magnús Ragnarsson, Eric Figueras og Óskar Hauksson), framkvæmdastjóri Mílu (Jón Ríkharð Kristjánsson) og framkvæmdastjóri Sensa (Valgerður Hrund Skúladóttir).
Til viðbótar eru fimm erlendir einstaklingar í fjárfestingahópnum. Þeir eru, auk Kan, þeir Joe Ravitch, Adam Samuelsson, Troels Askerud og Kaj Juul-Pedersen. Hópurinn kemur úr ýmsum áttum en Ravitch var til að mynda í stjórnendahópi Goldman Sachs í á annan áratug og Juul-Pedersen er fyrrum framkvæmdastjóri hjá Ericsson.
Þá eru þrír íslenskir einkafjárfestir líka með í hópnum. Á meðal þeirra er Sigurbjörn Þorkelsson, sem starfaði lengi sem yfirmaður hjá Lehman Brothers, var einn eigandi Haga og stofnaði fyrr á þessu ári verðbréfamiðlunina Fossa markaði með nokkrum fyrrum lykilstarfsmönnum úr Straumi. Hinir íslensku fjárfestarnir eru Stefán Ákason, fyrrum forstöðumaður skuldabréfamiðlunar Kaupþings, og áðurnefndur Ómar Svavarsson.