Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, gerði samskipti bænda við forsvarsmenn fyrirtækja í verslunarrekstri að umtalsefni við setningu búnaðarþings í dag og sagði mikilvægt að bæta þau. Hann sagði mikilvægt að verslunin „gerði hreint fyrir sínum dyrum“ gagnvart neytendum.
„Málsvarar tiltekinna stórkaupmanna hafa gengið hart fram í þeim málflutningi að hagur okkar hér á Íslandi felist í því að flytja sem mest inn af matvöru frekar en að framleiða hana sjálf. Þetta hafa þeir oft gert undir þeim formerkjum að þeir beri hag neytenda fyrir brjósti þrátt fyrir að flest bendi til þess að þeir séu að aðeins að hugsa um eigin hag,“ sagði Sindri og bætti við: „En sjá neytendur verðið lækka til sín? Nei, en þeir sjá, að arður stóru verslunarkeðjanna eykst ár frá ári. Og hverjir borga hann? Eru það ekki neytendurnir? Nýleg dæmi um verðþróun einstakra búvara, þar sem verð til bændanna lækkar en verð til neytanda hækkar, sýna það svart á hvítu að stóru verslunarkeðjurnar verða einfaldlega að gera hreint fyrir sínum dyrum og koma heiðarlega fram við neytendur.“
Sindri sagði ennfremur að það væri ekki góð staða að vera í endalausum ágreiningi við verslunina í landinu. Slík staða væri afleit.
„En það er hinsvegar afleitt að standa í endalausum ágreiningi við verslunina í landinu. Öll vitum við að það er mikilvægt fyrir okkur að hafa öfluga verslun um allt land sem er reiðubúin að selja vörur sem framleiddar eru af íslenskum bændum og að sama skapi er íslenskur landbúnaður mikilvægur fyrir kaupmenn landsins. Það er full ástæða til að þakka íslenskri verslun fyrir gott vöruframboð og hátt þjónustustig. En við þurfum að skilja hvort annað betur. Ég lýsi mig reiðubúinn til að drekka innflutt kaffi, þó helst latté með íslenskri mjólk, með hverjum þeim innan verslunarinnar sem tilbúinn er að ræða þessi mál á yfirveguðum nótum,“ sagði Sindri.