Þrátt fyrir að búið sé að koma á kynjakvótum í stjórnum fyrirtækja fjölgar konum ekki sjálfkrafa á framkvæmdastjórastigi og þróunin í jafnréttismálum er hæg, segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, á opnum fundi bankans og Ungra athafnakvenna, sem var haldinn í gær undir yfirskriftinni „Ljónin í veginum”. „Enda sniðgöngum við ekki fyrirtæki sem eru ekki að sinna þessu,” sagði hún.
„Ég er aðeins hrædd hvað þetta er að gerast hægt,” sagði Birna jafnframt og bætti því við að það væri umhugsunarefni að ár eftir ár sé að mælast kynbundinn launamunur á Íslandi: „Þarna hefðu lög átt að verða sett fyrir löngu,” sagði Birna og benti á möguleikann sem fælist í uppáskriftum endurskoðenda fyrirtækja sem dæmi um tæki til að nota gegn launamuni kynjanna.
Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs bankans, flutti erindi í upphafi fundar og í kjölfarið tóku við umræður en aðrir þátttakendur voru Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Símanum og Hallbjörn Karlsson fjárfestir. Fundarstjóri var Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka.
Birna Ósk sagði að almennt þætti henni konurnar sem vinna hjá henni ekki nógu kröfuharðar eða of þakklátar fyrir störfin, og að sama skapi gerðu sér ekki nógu vel grein fyrir því hvað þær gæfu fyrirtækinu mikið. „Það er miklu sjaldgæfara að konur biðji um launahækkun og eftir kreppu, ennþá verra.“
Þátttakendur í umræðum voru sammála um að ungar konur í dag mættu enn ýmsum hindrunum þegar þær stíga út í atvinnulífið. Þá var einnig nefnt að ábyrgð stjórnenda væri mikil þegar kæmi að jafnréttismálum innan fyrirtækja og stofnana. Hallbjörn Karlsson fjárfestir nefndi sem dæmi að mörg fyrirtæki væru með jafnréttisstefnu en það væri oftar í orði en ekki á borði: „Tilgangur með lögum um kynjakvóta er að breyta hugsunarhætti,” sagði Hallbjörn. Ragna sagðist nú vera orðin sannfærð um að grípa þurfi til róttækra aðgerða í jafnréttismálum.
Mjög mikill áhugi var á fundinum, en yfir 600 manns, nær eingöngu konur. Hægt er að horfa á fundinn hér.