Stuðningur við ríkisstjórnina er 34,8% samkvæmt nýjustu könnun MMR. Í síðustu mælingu fyrirtækisins, sem lauk 16. desember síðastliðinn, mældist stuðningur við ríkisstjórnina 37,3%. Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar því en hafa verður í huga vikmörk, sem í könnun sem þessari, þar sem um 1000 manns eru spurðir, geta verið allt að 3,1%.
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn, af þeim flokkum sem eiga fulltrúa á þingi, en Framsóknarflokkurinn er sá minnsti.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 27,3 prósent í könnuninni nú samanborið við 29,4 prósent í síðustu könnun. Björt framtíð mælist næststærsti flokkurinn með 16,9 prósent, en mældist með 16,2 síðast. Þá er Samfylkingin með 15,9 prósent en var með 16,1 í síðustu könnun. Píratar mælast með 12,8 prósent samanborið við 11,4 síðast. Fylgi Vinstri-grænna mælist 11,9 prósent núna en var 10,4 prósent í síðustu könnun. Þá er Framsóknarflokkurinn með 9,4 prósent samanborið við 11 prósent síðast þegar MMR gerði könnun. Aðrir flokkar mældust með undir tveggja prósenta fylgi.