Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, Þórður Þórarinsson, vill ekki gefa upp hversu stóran hluta af 56 milljóna króna styrkjum sem flokkurinn fékk frá FL Group og Landsbankanum í lok árs 2006 er búið að endurgreiða. Hann segir flokkinn ekki vilja tjá sig í smáatriðum um einstaka liði í bókhaldi hans.
„Sjálfstæðisflokkurinn var eini flokkurinn sem ákvað að endurgreiða háa styrki sem hann hlaut árið 2006. Flokkurinn hefur endurgreitt árlega af rekstrarfé sínu. Áætlanir ganga úr frá því að klára að endurgreiða styrkina fyrir árið 2018,“ segir Þórður.
Kjarninn hafði samband við Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóra Stoða, sem áður hétu FL Group og spurði hann hvort og hversu mikið Sjálfstæðisflokkurinn hafi greitt til baka. Hann sagði félagið hafa ákveðið að tjá sig hvorki af eða á um málið.
Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi slitabús Landsbankans, segir það ekki geta upplýst um greiðslur einstakra viðskiptavina. Það eigi einnig við um endurgreiðslur á styrkjum. Því geti búið hvorki sagt til um hvort né hversu mikið Sjálfstæðisflokkurinn hafi greitt til baka af styrkjum sínum.
Var búinn að greiða 18 milljónir króna árið 2013
Styrkirnir voru veittir í lok árs 2006 og námu samtals 56 milljónum króna. Vorið 2009 sagði Bjarni Benediktsson, þá nýkjörinn formaður flokksins, að styrkirnir yrðu endurgreiddir.
Á landsfundi flokksins 2013 kom fram í máli Jónmundar Guðmarsson, þáverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, að flokkurinn hefði þegar endurgreitt um 18 milljónir króna. Samkvæmt því stóðu þá 38 milljónir króna eftir árið 2013.
Ríkisendurskoðun birtir árlega útdrátt úr ársreikningi stjórnmálaflokka. Síðasti birti útdráttur fyrir Sjálfstæðisflokkinn er fyrir árið 2013. Þar kemur fram að flokkurinn tapaði 127 milljónum króna á því ári, en vert er að taka fram að kosið var til Alþingis 2013 og gjöld því hærri en ella. Skuldir flokksins námu 386 milljónum króna í lok þess árs en eigið fé var 417 milljónir króna. Það lækkaði úr 543 milljónum króna árið áður.
Engar upplýsingar um endurgreiðslur á styrkjunum til FL Group og Landsbankans er að finna í útdrættinum.
Ýmis fjármála- og fjárfestingafyrirtæki styrktu stjórnmálaflokka á árunum fyrir hrun um háar fjárhæðir. Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem ætlar sér að endurgreiða þá styrki.