Píratar mælast með langmest fylgi allra stjórnmálaflokka, en alls segjast 34,2 prósent aðspurðra að þeir myndu kjósa þá í nýrri könnun MMR. Þetta er tíunda könnunin í röð hjá fyrirtækinu þar sem Píratar mælast stærsti flokkur landsins. Fylgisbreytingar hjá flokknum í síðustu þremur könnunum eru innan vikmarka.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar 3,6 prósentustigum á milli kannanna og mælist nú með 21,7 prósent fylgi. Það er með því lægsta sem flokkurinn hefur mælst með á þessu kjörtímabili, en landsfundur hans fer fram um komandi helgi. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 23,7 prósent atkvæða í síðustu þingkosningum.
Framsóknarflokkurinn, hinn ríkisstjórnarflokkurinn, mælist með 10,4 prósent fylgi. Hann mældist með 11,8 prósent fylgi í síðustu könnun MMR sem var birt í 24. september. Flokkurinn er langt frá kjörfylgi sínu, en hann fékk 24,4 prósent atkvæða í kosningunum vorið 2013 og var þá ótvíræður sigurvegari þeirra kosninga.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist einungis 31,4 prósent nú þegar kjörtímabilið er rúmlega hálfnað. Hann dalar lítillega á milli kannanna en stuðningurinn hefur mæst rétt rúmlega 30 prósent frá því í vor.
Vinstri grænir bæta við sig
Vinstri grænir taka stökk upp í nýju könnuninni. Þeir mælast nú með 11,8 prósent fylgi en voru með 8,3 prósent í lok september. Samfylkingin heldur áfram að mælast með lítinn stuðning. Nú segjast 11,3 prósent aðspurðra að þeir myndu kjósa flokkinn, sem er svipað og í síðasta könnun. Samfylkingin fékk 12,9 prósent atkvæða í síðustu kosningum, og þótti flokkurinn hafa beðið afhroð.
Björt framtíð virðist einnig eiga í vandræðum með að ná viðspyrnu þrátt fyrir að hafa skipt um áhöfn í brúnni, en Óttarr Proppé tók nýverið við sem formaður flokksins af Guðmundi Steingrímssyni. Fylgi flokksins mælist nú 6,5 prósent.